Andri Sigurðsson, vefhönnuður, hefur óskað eftir skýringum frá Alþýðusambandi Íslands vegna ummæla sem Halldóra Sveinsdóttir, þriðji varaforseti Alþýðusambandsins, lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Andri sendi á fjölmiðla rétt í þessu.
Viðtalið birtist undir fyrirsögninni. „Mjög alvarlegt ef lög hafa verið brotin” en í því tjáir Halldóra sig um frétt Fréttablaðsins á dögunum þar sem fram kom að Andri hefði fengið yfir 20 milljónir króna yfir þriggja ára tímabil fyrir að hanna vefsíðu Eflingar. Hann hafi verið handvalinn í starfið sem var athyglisvert vegna tengsla hans við Sósíalistaflokkinn sem Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar, hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir.
Óhætt er að fullyrða að viðtalið við Halldóru hafi fallið í grýttan jarðveg hjá Sólveigu Önnu sem sakaði hana um að beita viðbjóðslegum aðferðum og að allt sem hún segði væri uppspuni og lygar. Í yfirlýsingu Andra kemur einnig fram að hann sé verulega ósáttur við framgöngu Halldóru.
„Í viðtalinu kemur Halldóra fram í nafni Alþýðusambandsins og tjáir sig um mín störf í útseldri vinnu til eins af aðildarfélögum ASÍ. Hún talar um mín störf á þeim nótum að þar hafi lög hugsanlega verið brotin og að fjárdráttur hafi átt sér stað. Er ég nefndur á nafn í fréttinni og er ljóst að átt er við vinnu mína fyrir Eflingu – stéttarfélag frá árinu 2019 og fram til janúar á þessu ári við vefhönnun, grafík og fleira,“
Segir Andri að enginn aðili hafi stigið fram undir nafni til að setja fram grunsemdir um fjárdrátt í störfum sínum fyrir Eflingu eða að í þeim störfum hafi ekki verið farið að lögum. „Til mín hafa engar fyrirspurnir eða upplýsingar borist um slíkt, hvorki frá Eflingu né öðrum, fyrir utan orðróm um að sitjandi formaður Eflingar hafi sett fram einhverjar óljósar dylgjur á trúnaðarráðsfundi í síðasta mánuði. Ég hef hins vegar lesið, mér til mikillar furðu, fréttaskrif í fjölmiðlum þar sem hafðar eru eftir nafnlausar gróusögur um mig og mín störf. Fréttamenn sem skrifuðu þessar fréttir hafa þó aldrei haft samband við mig,“ segir Andri í yfirlýsingu sinni.
Hann segist ekki geta skilið hvers vegna þriðji varaforseti Alþýðusambandins ræðir um sig og sín störf við fjölmiðla og setji þau í samhengi við lögbrot og fjárdrátt.
„Ég tel að með þessu stundi varaforseti atvinnuróg um mig, og misnoti stöðu sína sem málsvari Alþýðusambandsins til þess. Ég er sjálfstætt starfandi og byggi afkomu mína m.a. á orðspori mínu og þeirrar vinnu sem ég vinn fyrir mína viðskiptavini. Með því að fulltrúi Alþýðusambands Íslands bendli störf mín algjörlega að tilhæfulausu við fjárdrátt og lögbrot er vegið að starfsheiðri mínum og mér gert erfiðara að afla mér lífsviðurværis. Það er fremur nöturlegt að einn af æðstu leiðtogum Alþýðusambands Íslands sýni af sér slíka hegðun og finnst mér spurning hvort það sé sæmandi embætti varaforseta ASÍ,“ segir Andri og krefst þess að fá skýringar frá ASÍ.