Sky News segir að drengurinn hafi farið frá Zaporizhzhia og farið nánast þvert yfir landið til að komast til Slóvakíu. Foreldrar hans neyddust til að vera áfram í landinu og sendu hann því einan af stað.
Við komuna til Slóvakíu tóku sjálfboðaliðar við honum.
Í færslu á Facebooksíðu slóvakíska innanríkisráðuneytisins er drengnum hrósað fyrir hugrekki og staðfestu. Fram kemur að hann hafi að sjálfsögðu fengið mat og drykk við komuna til landsins.
Starfsfólki innanríkisráðuneytisins tókst að hafa upp á ættingjum hans í Slóvakíu með því að hringja í símanúmerið sem var skrifað á handarbak hans.
Um 130.000 úkraínskir flóttamenn hafa komið til Slóvakíu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.