Daily Star skýrir frá þessu og vitnar í ónafngreinda bandaríska embættismenn. Fram kemur að veikindin geti hugsanlega hafa gert Pútín árásargjarnan eða að hann hafi ákveðið að ráðast á Úkraínu þar sem hann viti að hann eigi ekki langt eftir og vilji tryggja arfleið sína.
Haft er eftir fyrrum liðsmanni leyniþjónustu bandaríska hersins, sem starfar nú hjá varnarmálaráðuneytinu, að hann telji að Pútín sé alvarlega veikur: „Ég hef oft séð hann brosa en á þessu ári hafa ekki verið teknar margar myndir af honum hamingjusömum. Útlit hans bendir til að hann sé með mikla verki og okkar fólk telur að reiðilegt útlit hans sé líklega vegna þjáninga hans.“
„Okkar fólk er sannfært um að hann sé veikur, hann hefur áhyggjur af COVID og heldur starfsfólki sínu fjarri sér,“ sagði heimildarmaðurinn einnig.
Lord Owen, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands og læknir, sagði í samtali við Times Radio að út frá andliti Pútín megi ráða að hann taki stera eða sé á sterkum lyfjum. Hann hafi alltaf verið stoltur af líkama sínum og hafi látið mynda sig beran að ofan, nú sé staðan önnur. Það að nota stera eða vera í lyfjameðferð valdi því að andlitið verði hringlaga og að fólk verði berskjaldaðra fyrir COVID. Pútín hafi verið í algjörri einangrun, hitti nær engan og þegar hann geri það sé viðkomandi haldið víðs fjarri honum. Skemmst er þar að minnast fundar Pútín með Emmanuel Macron, Frakklandsforseta, í febrúar þar sem Macron fékk aldrei að koma nærri honum.