Hér á landi hefur umræða um varnarmál einnig átt sér stað og í síðustu viku lagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til í Dagmálum Morgunblaðsins, að ríkið setji sérstaka stofnun á laggirnar sem verði vettvangur umræðu sérfræðinga um öryggis- og varnarmál.
Morgunblaðið segir að í gær hafi Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skrifað á Facebook að hann telji að föst viðvera varnarliðs hér á landi muni fæla óvinasveitir frá því að gera árás á landið.
Frá því að Bandríkjaher yfirgaf landið 2006 hefur ekki verið varnarlið með fasta viðveru hér á landi. NATO-ríkin hafa þó sinnt loftrýmisgæslu öðru hvoru.
Í færslu sinn ber Baldur Ísland og Úkraínu saman og segir að þau eigi allt sitt undir að vera í skjóli voldugra ríkja eða ríkjabandalaga því þau hafi ekki burði til að verja sig sjálf.
Þeir leiðtogar stjórnmálaflokkanna sem Morgunblaðið leitaði til voru fæstir reiðubúnir til að taka skýra afstöðu um þetta en margir lögðu áherslu á nauðsyn samráðs og sameiginlegs mats á vettvangi NATO um þetta.