Þetta er mat Jeremy Morris, prófessors við Árósaháskóla, sem hefur mikla þekkingu á Rússlandi og efnahag landsins.
„Þeir sem tapa mest eru þeir sem hata Pútín nú þegar. Millistéttin mun missa allt. Refsiaðgerðirnar munu valda hárri verðbólgu sem mun einnig hafa mikil áhrif á þá fátæku. En í heildina er það millistéttin, sem hefur getað keypt vörur frá Apple, vestrænan fatnað og vesturevrópska bíla, sem mun verða fyrir mestum áhrifum. Hún mun í raun missa allan kaupmáttinn sinn,“ sagði hann í samtali við Ekstra Bladet.
Hann sagði að rússneska millistéttin sé um 15-20% af íbúafjölda landsins.
Hann sagði að einnig geti orðið skortur á ákveðnum matartegundum en það verði væntanlega ekki stórt vandamál því Rússar geti framleitt þær matvörur sem þeir hafa þörf fyrir.