fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Fréttir

Kristín berst við að fá skilnað við mann sem er fluttur út frá henni og er virkur á Tinder – „Þetta bitnar rosalega á mér fjárhagslega“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 7. mars 2022 20:00

Kristín Hrafnhildur Aradóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Hrafnhildur Aradóttir er fjögurra barna einstæð móðir í Hveragerði en engu að síður gift albönskum manni. Hún er að reyna að losna úr því hjónabandi sem er aðeins að nafninu til enda er maðurinn fluttur út frá henni og er virkur á stefnumótaforritinu Tinder.

Maðurinn, sem er frá Albaníu, gengur undir ýmsum nöfnum. Hann dvelst ólöglega á landinu en er í vinnu hér og er með svokallaða kerfiskennitölu.

Kristín og maðurinn kynntust í endaðan mars í fyrra. „Við spjölluðum á Tinder og fyrst fannst mér hann svo ágengur að ég blokkaði hann. Svo hugsaði ég með mér að ég ætti kannski að gefa honum sjens og unblokkaði hann og við byrjuðum að tala saman. Þetta var dálítið yfirdrifið, hann var mjög ákafur og vildi strax hringja. Ég byrjaði greinilega á því að vera dáítið blind, fólk er ekki fullkomið og ég gaf honum alveg færi á því að vera ófullkominn,“ segir Kristín.

Skömmu eftir að þau hittust augliti til auglitis tókst manninum að heilla Kristínu. „Ég hugsaði með mér hvað er oft talað illa um útlendinga hér, t.d. múslima, hann var svo akkúrat öfugt við allar slíkar lýsingar,  því hann var svo rosalega góður og almennilegur við mig,“ segir Kristín en maðurinn var mjög ástrúðlegur við hana og þau fóru að búa saman.

Þau giftust síðan í júní 2021. „Það var mín hugmynd að við myndum gifta okkur til að hann fengi dvalarleyfi því ég taldi mér trú um að hann elskaði mig svo mikið,“ segir Kristín, en mjög snemma í hjónabandinu komu brestir í sambandið. Voru þeir aðallega vegna ósannsögli mannsins og framkomu hans sem versnaði hratt eftir að hann flutti inn til Kristínar.

Sífelldar lygar

„Hann flutti hingað inn í íbúð sem ég er með í leigu en ég er með yndislega leigusala. Hann kom ekki með neitt til heimilisins, ég var búin að koma mér upp heilli búslóð og ég keypti bíl og allt saman. Hann tók ekki þátt í neinu, borgaði mjög lítið og var að senda peninga út til fjölskyldu sinnar,“ segir Kristín. Hún greinir frá því að snemma hafi byrjað að bera á ósannsögli hjá manni hennar. Til dæmis gaf henni ekki upp rétt nafn, nafnið sem hann gaf henni upp stefndi ekki við nafnið í vegabréfinu hans.

Einnig sagði hann henni að hann væri ítalskur en amma hans væri múslími. „Ekkert að því að vera múslími en allar þessar lygar,“ segir Kristín og að sannleikurinn hafi verið sá að maðurinn væri frá Albaníu, sem og öll hans fjölskylda, en forfeður hans ættu rætur að rekja til Ítalíu, en þá sem albanskir innflytjendur.

Kristín segir enn fremur að hún hafi fyrst vitað að maðurinn hefði verið giftur áður þegar þau voru að safna saman pappírum til að geta látið gefa sig saman. Þá sá hún á einu vottorðinu „divorced“. Þá greindi maðurinn henni ekki frá því að hann ætti börn úti í Albaníu en hann á börn með fyrrverandi eiginkonu sinni og var í sambandi við hana eftir að hann giftist Kristínu, án hennar vitundar.

„Þetta eru svona hlutir sem fólk í nánu sambandi talar um. En það var alltaf þannig að ég mátti aldrei vita neitt um fortíð hans,“ segir Kristín og finnst henni eins og undirferli og lygar hafi gegnsýrt persónu mannsins.

Andlegt ofbeldi

„Andlega ofbeldið var ógeðslegt. Hann var bara rosalega leiðinlegur við mig og sagði ljóta hluti. Þegar ég stóð í þeirri meiningu að hann ætti ekkert barn þá gaf ég til kynna að ég væri kannski til í að eignast eitt barn með honum þó að ég ætti fjögur fyrir og væri hætt barneignum. Svo segir hann við mig einn daginn þegar það voru einhver læti í börnunum, svona bara eins og börn eru: Þú kannt ekki að ala upp börn, ég vil ekki eignast börn með þér.“

„Hann var líka að segja mér að ég væri klikkuð og það væri eitthvað að mér. Svona gaslýsingar eins og talað er um.“

Kristín segir að maðurinn hafi aldrei lagt á hana hendur en hann hafi ógnað henni. „Eitt skiptið var klósettið stíflað því krakkarnir höfðu verið að henda klósettpappír í það. Þá gargar hann á mig inni á baði og segir: Komdu og losaðu stífluna! Af hverju talarðu svona við mig? Af hverju biðurðu mig ekki um að losa stífluna? segi ég. Hann heldur á bol og lemur honum í ofninn með ógnandi tilburðum og strunsaði í burtu.“

Kristín segir enn fremur að maðurinn hafi verið ógnandi við eitt barnanna hennar og lagt á það hendur.

Skrópar hjá sýslumanni

Kristín segist hafa losað sig við manninn af heimilinu endanlega í janúar og þurfti hún aðstoð lögreglu til að fá hann í burtu. Hann býr núna á ótilgreindum stað og vinnur á garðyrkjustöð nálægt heimili Kristínar. Hann er ekki með dvalarleyfi á Íslandi og samkvæmt upplýsingum sem Kristín hefur fengið hjá Útlendingastofnun er hann ólöglega á landinu og stendur til að vísa honum burtu. Er hann með svokallaða kerfiskennitölu sem gerir honum kleift að stunda atvinnu.

„Ég hafði samband við Útlendingastofnun því ég vil ekki að hann fái dvalarleyfi hér í gegnum þetta hjónaband sem ekkert er,“ segir Kristín en maðurinn er núna virkur á stefnumótaforritinu Tinder. Þar segist hann vera tíu árum yngri en hann er og gefur upp falskt nafn. Bæði Kristín og maðurinn eru rúmlega fertug.

Kristín hefur reynt að fá manninn í tvígang til að mæta til fundar hjá sýslumanni og skrifa undir skilnaðarpappíra en hann hefur ekki látið sjá sig og hefur borið við veikindum, sem Kristín telur vera fyrirslátt.

„Þetta bitnar rosalega á mér fjárhagslega, það hafa til dæmis verið frystar til mín greiðslur sem munu ekki berast fyrr en skilnaðurinn er genginn í gegn. Síðan liggja fyrir kærur frá mér hjá lögreglu á hann fyrir andlegt ofbeldi og fyrir að hafa lagt hendur á barnið mitt.“

Segir Kristín að næst á dagskrá sé að stefna manninum fyrir dóm til skilnaðar. Er lögmaður að vinna í því fyrri hana. Dæmin sanna að erfiðlega getur gengið að fá lögskilnað ef báðir aðilar eru því ekki samþykkir. Eru mörg dæmi um slíka þrautagöngu. Kristín er þó vongóð um að skilnaður fáist í kjölfar þess að manninum verði vísað úr landi og gæti hún stefnt honum til skilnaðar um leið og honum verður vísað úr landi.

„Ég er að vinna þetta með Útlendingastofnun og þau hafa verið yndisleg við mig,“ segir Kristín og er vongóð um að hún fái brátt skilnað frá þessum manni og geti haldið áfram með líf sitt.

DV tókst ekki að hafa tal af manninum við vinnslu fréttarinnar og verður nafn hans því ekki gefið upp.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur tónlistarmaður „datt út um glugga“ þegar hrottar Pútíns komu í heimsókn

Rússneskur tónlistarmaður „datt út um glugga“ þegar hrottar Pútíns komu í heimsókn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Ég hef eldað fyrir tugþúsundir manna og þetta hefur aldrei gerst áður“

„Ég hef eldað fyrir tugþúsundir manna og þetta hefur aldrei gerst áður“