New York Times skýrir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum, sem standa Biden nærri, að eftir því sem refsiaðgerðir Vesturlanda bíti meira og stríðsreksturinn í Úkraínu gangi illa geti farið svo að Pútín verði svo örvæntingarfullur að hann muni grípa til enn óskynsamlegri aðgerða en fram að þessu.
Ráðgjafarnir segja að sögn að nú sé sá ófyrirséði vandi kominn upp að refsiaðgerðirnar hafi verið svo áhrifamiklar að Pútín finnist að nú þurfi hann að bæta fyrir þau mistök sem hann gerði í upphafi stríðsins.
Pútín hefur verið sakaður um að hafa ekki reiknað nægilega vel með getu úkraínska hersins til að stöðva framrás rússneska hersins.
Bandarísku öryggisráðgjafarnir óttast að í reiði sinni kunni Pútín að byrja að láta sprengjum rigna í enn meira magni yfir úkraínskar borgir til að ná aftur undirtökum í stríðinu. Óttast þeir að Pútín muni hegða sér sífellt óskynsamlegar og það muni gera bandarískum leyniþjónustustofnunum enn erfiðara fyrir að sjá þróun mála fyrir.
Þeir óttast einnig að hann muni láta tölvuher sinn ráðast á bandarísk fjármálafyrirtæki og orkufyrirtæki og þriðja sviðsmyndin er að hann muni ráðast með herliði á fleiri Evrópuríki.
Þessi umræðu kemur á sama tíma og bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa látið í ljós áhyggjur af andlegri heilsu Pútín.
Til að hella ekki olíu á eldinn ákváðu bandarísk stjórnvöld í síðustu viku að hætta við fyrirhugaða tilraun með svokallaða Minutemaneldflaug. John F. Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, skýrði frá þessu og sagði að ekki hefði verið auðvelt að taka þessa ákvörðun en það hafi verið gert til að sýna að Bandaríkin séu ábyrgt kjarnorkuveldi: „Við verðum að viðurkenna að spennan er á krítísku stigi.“