Á fundinum kom fram að framlög til varnarmála verða aukin upp í 2% af vergri þjóðarframleiðslu og á það markmið að nást að fullu 2033. Það þýðir að útgjöld til varnarmála munu aukast um 18 milljarða danskra króna á ári. Útgjöldunum verður aðallega mætt með hallarekstri ríkissjóðs upp á 0,5%.
Herinn fær 3,5 milljarða í aukaframlag á þessu ári og einnig á næsta ári.
Það er innrás Rússa í Úkraínu og viðsjárvert ástand á alþjóðavettvangi sem er ástæðan fyrir þessum breytingum á útgjöldum Dana til varnarmála og fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni.
„Sögulegir tímar kallar á sögulegar ákvarðanir. Við stöndum hér saman í dag því við höfum tekið sögulega ákvörðun um öryggi Danmerkur og sameiginlega framtíð okkar,“ sagði Frederiksen í gær. Hún sagði einnig að stefnt væri að því að Danir hætti alfarið að nota gas frá Rússlandi og það eins fljótt og unnt er. Hún sagði að það muni kosta peninga en því verði mætt með breytingu á fjárlögunum þannig að heimilt verði að reka ríkissjóð með halla.
„Á síðustu 10 dögum hefur heimurinn breyst. Það var Evrópa fyrir 24. febrúar og önnur Evrópa eftir það,“ sagði hún og undir það tók Jakob Elleman-Jensen, formaður Venstre, sem sagði að ráðist hefði verið inn í frjálst lýðræðisríki. Nú væri ekki lengur hægt að vera barnalegur. Heimurinn sé breyttur og það sé stríð í Evrópu.