fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Árni Þór ræddi um ástandið í Rússlandi – „Fólk upplifir þetta algjörlega á eigin skinni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 7. mars 2022 22:00

Rússar við matarinnkaup. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, segir ekki ólíklegt að mótmæli eigi eftir að aukast í landinu gegn stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

„Við höfum alveg séð það í fjölmiðlum að stjórnvöld hafa gripið til ýmissa úrræða til að halda utan um umræðuna. Þetta er kölluð sérstök hernaðaðgerð af hálfu stjórnvalda hér, ekki talað um innrás eða stríð. Og það er orðið refsivert, að því er virðist, að tala á þeim nótum. Þannig að fólk fer auðvitað varlega, það eru sumir sem hafa verið úti á götum að mótmæla og lögreglan hefur eftirlit með því og hefur verið að handtaka fólk,“ segir Árni.

Árni segist verða var við aukinn viðbúnað lögreglu og hers á götum úti, meira sé um eftirlit og fólk sé beðið um skilríki eða að sýna síma sína.

Árni var spurður um hvernig refsiaðgerðir Vesturlanda vegna stríðsisns bitni á almennum borgurum. „Það sést ekki síst í gegnum daglega verslun, rúblan hefur hríðfallið, gengi hlutabréfa hefur fallið og markaðir verið lokaðir. Verðbólgan er komin á verulegt skrið, það er að einhverju leyti minna vöruúrval þó að það taki tíma að síast út í verslanir, takmarkanir á innflutningi og slíkt. Fólk finnur fyrir þessu og það sér að verðlag er á uppleið og það er eitthvað um tómar hillur í verslunum. Fólk upplifir þetta algjörlega á eigin skinni.“

Árni segir að almenningsálitið geti farið í tvær áttir. Fólk gæti þjappað sér saman að baki forsetanum vegna refsiaðgerða Vesturlanda og það gæti líka snúist gegn stjórnvöldum og talið þau bera ábyrgð á því sem á því dynur.

Árni segir að flestir stjórnmálaskýrendur sem hafa mikla þekkingu á Rússlandi séu á því að sá þrýstingur sem hefði afgerandi áhrif á stefnuna þyrfti að koma frá almenningi þó að vissulega skipti álit fólks í efstu lögum samfélagsins máli líka. En meiri áhrif hafi ef viðhorf almennings verði á einn veg og stjórnvöld finni fyrir því með afgerandi hætti.

„Fólk veit hvað er í gangi í öllum meginatriðum en sér það með þeim gleraugum sem í boði eru, hvernig umræðan er matreidd hér. Margir fylgja þeirri línu sem er í fjölmiðlum en margir hafa aðrar skoðanir og eru ósáttir, sérstaklega yngra fólk sem á auðveldara með aðgang að upplýsingum annars staðar frá,“ segir Árni.

Árni segir að sögusagnir séu um að menn í ríkisstjórn og jafnvel stjórnendur í hernum hafi efasemdir um hernaðinn en ekkert staðfest hafi komið fram um það og upplýsingaóreiðan sé mikil.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt