Karlmaður um tvítugt varð fyrir hrottalegri líkamsárás aðfaranótt laugardags í miðbænum er hann var stunginn ítrekað í bakið með skrúfjárni.
Móðir mannsins greindi frá árásinni í færslu á Facebook sem hefur vakið mikla athygli en þar segir hún að sonur hennar hafi verið þungt haldinn á sjúkrahúsi í kjölfar árásarinnar, en hann er nú kominn úr lífshættu.
Gagnrýnir móðirin að viðstaddir hafi ekki komið syni hennar til aðstoðar, en dyraverðir á skemmtistað fylgdust með en gerðu ekkert og þurfti sonur hennar sjálfur að koma sér að sjúkrabíl og óska þar eftir hjálp.
Hún biðlar til mögulegra vitna að gefa sig fram við lögreglu, en árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistað á horni Austurstrætis og Veltusunds.
Lögregla staðfesti í samtali við RÚV að málið væri til rannsóknar en sem stendur liggur enginn undir grun.
Móðir mannsins telur í færslu sinni að um tilraun til manndráps hafi verið að ræða.