Um tvöleytið í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp við Gullinbrú í Grafarvogi. Mikil hálka hafði myndast þar sem fimm bílar enduðu utan vegar. Draga þurfti tvo bíla inn á veginn. Engin meiðsli hlutust af þessu en fólk var í hættu á að verða fyrir bílum sem voru á ferð.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að mikið hafi verið um ölvun og slagsmál í nótt og eru fimm sem gista fangageymslu.
Um níuleytið í gærkvöld var kona í annarlegu ástandi handtekin á hóteli í hverfi 108. Konan var ekki gestur á hótelinu og vildi ekki yfirgefa hótelið. Konan fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var því handtekin og vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Um hálfellefuleytið í gærkvöld voru afskipti höfð af manni í Hafnarfirði vegna gruns um framleiðslu fíkniefna. Voru haldlagðar plöntur og búnaður.