Í gærkvöldi hófu rússneskar hersveitir skothríð á Zaporizhzhia, sem er stærsta kjarnorkuver Evrópu, og kviknaði eldur í tveimur byggingum við það. Slökkvilið hefur náð tökum á eldinum en slökkvistarfi er ekki lokið.
Hér fyrir neðan kemur yfirlit yfir helstu atburði næturinnar og verður fréttin uppfærð eftir því sem ný tíðindi berast:
Uppfært klukkan 07.31 – Rússneska Dúman hefur samþykkt lög sem kveða á um að fangelsisrefsing liggi við dreifingu rangra upplýsinga um rússneska herinn.
Uppfært klukkan 07.24 – Breska varnarmálaráðuneytið segir í stöðuskýrslu dagsins að úkraínskar hersveitir séu enn með borgina Mariupol á sínu valdi en líklega hafi rússneskar hersveitir umkringt borgina.
Uppfært klukkan 07.12 – Herman Halusjtsjenko, orkumálaráðherra Úkraínu birti færslu á Facebook í morgun þar sem hann bað NATO um að grípa inn í stríðið í Úkraínu í kjölfar þess að Rússar réðust á Zaporizhzhia kjarnorkuverið í gærkvöldi. „Við krefjumst raunverulegrar íhlutunar með hörðustu aðgerðum – einnig frá NATO og ríkjum sem eiga kjarnorkuvopn,“ skrifaði hann að sögn dpa fréttastofunnar. Hann sagði að Rússar hefðu ráðist á kjarnorkuverið úr lofti og á jörðu niðri.
Uppfært klukkan 06.45 – Google hefur ákveðið að hætta að selja auglýsingar í Rússlandi.
Uppfært klukkan 06.22 – Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir að svo virðist sem ekkert tjón hafi orðið á þeim hlutum kjarnorkuversins þar sem kjarnakljúfarnir eru.
Uppfært klukkan 06.07 – Bandaríkin hafa virkjað kjarnorkuviðbragsteymi sitt vegna stöðunnar við Zaporizhzhia-kjarnorkuverið.
Uppfært klukkan 06.05 – Úkraínsk yfirvöld segja að rússneskar hersveitir hafi náð Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu á sitt vald.
Uppfært klukkan 05.32 – Rússnesk yfirvöld hafa takmarkað aðgang Rússa að rússneskum útsendingum breska ríkisútvarpsins BBC sem og Radio Liberty og Meduza. Rússneska ríkisfréttastofan RIA skýrði frá þessu í morgun og segir að ástæðan sé að útvarpsstöðvarnar grafi undan rússneskum stjórnmálum og öryggi.
Uppfært klukkan 05.31 – AirBnB tilkynnti í nótt að fyrirtækið hætti starfsemi í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
Uppfært klukkan 05.21 – Kínverski fjárfestingabankinn AIIB hættir nú lánveitingum til Rússlands og Hvíta-Rússlands. Bæði lönd sæta nú refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum Vesturlanda. Í tilkynningu frá bankanum segir að þetta sé gert til að verja hagsmuni hans.
Uppfært klukkan 04.49 – Úkraínsk yfirvöld segja að tekist hafi að slökkva eldinn við kjarnorkuverið.
Uppfært klukkan 04.40 – Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, sakar Rússa um „kjarnorkuhryðjuverk“. Hann sagði fyrir stundu að svo virðist sem Rússar vilji endurtaka Tjernobyl-hörmungarnar. „Ekkert annað ríki en Rússland hefur nokkru sinni skotið á kjarnakljúfa. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni, í sögu mannskyns,“ sagði hann á myndbandsupptöku sem var birt fyrir stundu.
Uppfært klukkan 04:36 – Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir að geislavirkni við verið sé eðlileg.
Uppfært klukkan 04.35 – Slökkvilið í Úkraínu segir að rússneskir hermenn hafi í fyrstu meinað þeim að slökkva eldinn í byggingunum við kjarnorkuverið. Þeir fengu síðan heimild til þess og hafa náð tökum á eldinum.
Uppfært klukkan 04:35 – Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sakar Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, um að stefna allri Evrópu í hættu með því að láta hersveitir ráðast á kjarnorkuverið. Johnson ætlar að biðja um neyðarfund í öryggisráði SÞ.