Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar Samtaka atvinnulífsins á vinnumarkaðnum. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að á þessum fjórum árum muni störfum fjölga um fimmtán þúsund en aðeins þrjú þúsund manns bætast við vinnuaflið á þeim tíma af náttúrulegum ástæðum.
Haft er eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra samtakanna, að skortur á vinnuafli geti haldið aftur af hagvexti á næstu árum og því geti viðspyrnan úr faraldrinum, sem hefur komið illa niður á atvinnulífinu, orðið veikari en ella. „Rætur hagvaxtar liggja í því að við getum mannað störf framtíðarinnar,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að vinnuaflsskorturinn nú sé „með því brattara sem við höfum tekist á við“. Vandinn sé aðallega í ferðaþjónustunni, veitingageiranum og byggingariðnaðinum.