Fjarskiptaeftirlit Rússlands, Roskomnadzor, hefur krafist þess að alfræðivefsíðan Wikipedia fjarlægi „falskar upplýsingar um sérstöku hernaðaraðgerðirnar í Úkraínu“.
Hefur eftirlitið sent forsvarsmönnum vefsíðunnar erindi vegna málsins þar sem því er haldið fram að þar megi finna falskt efni sem sé birt í þeim tilgangi að afvegaleiða rússneska borgara.
Inn á Wikipedia-síðunni um Roskomnadzor kemur nú fram að Roskomnadzor hafi í gær hótað því að loka á aðgang Rússa að Wikipedia út af grein sem þar má finna sem ber titilinn Вторжение России на Украину (2022) eða „Innrás Rússlands í Úkraínu (2022)“ og að Roskomnadzor haldi því fram að í greininni megi finna upplýsingar sem hafi verið dreit með ólögmætum hætti þar á meðal fullyrðingar um gífurlegt mannfall rússneskra hermanna sem og óbreyttra borgara í Úkraínu, þeirra á meðal börn.
Greinin sem Roskomnadzor vísar til fjallar um innrásina og er þar talað um stríð og meiningar Rússa um að um „sérstaka hernaðaraðgerð“ sé að ræða er haft innan gæsalappa.
Þar er einnig sagt að Rússland haldi því ranglega fram að Úkraína sé nýnasistaríki og að Pútín hafi notað það sem yfirskin til að réttlæta innrásina.
Varðandi tölur um óbreytta borgara sem hafa fallið er vísað til upplýsinga frá Sameinuðu þjóðunum og varðandi tölur um fallna rússneska hermenn er vísað til upplýsinga sem úkraínsk stjórnvöld hafa gefið út.
Þar er einnig fjallað um Roskomnadzor og talað um þá ritskoðun sem eftirlitið hefur beitt borgara Rússlands, Meðal annars að fjölmiðlar séu skyldugir til að byggja fréttaflutning sinn af stöðunni í Úkraínu á opinberum upplýsingum stjórnvalda. Eins hefur eftirlitið lokað aðgangi að mörgum úkraínskum og rússneskum miðlum.
Eins kemur þar fram að Rússar sem kvaddir voru með herkvaðningu í herinn, sem séu ekki búnir að fá þjálfun, hafi verið neyddir til að skrifa undir samning og svo sendir í stríð. Er þar vísað til ummæla Olgu Larkinu, formaður samtakanna „Samband rússneskra mæðra hermanna“