Sérkennileg tilkynning hefur birst á vefsíðu Ungmennafélags Njarðvíkur, UMFN, þar sem bréfasending til foreldra iðkenda í Glímudeild UMFN er fordæmd. Tilkynningin er svohljóðandi:
„Á dögunum fór út bréf í nafni Glímudeildar UMFN til foreldra fyrrum iðkenda deildarinnar. Það bréf var sent út í óþökk aðalstjórnar UMFN og við biðjumst velvirðingar á því.
Ungmennafélagið fordæmir innihald bréfsins og lítur þetta mjög alvarlegum augum.
UMFN óskar foreldrum og iðkendum góðs gengis hvar sem þau stunda sína íþrótt.“
DV þekkir ekki til umrædds bréfs til foreldra. Haft var samband við Hámund Örn Helgason, framkvæmdastjóra UMFN, og vildi hann ekki upplýsa um innihald bréfsins:
„Ekki að svo stöddu,“ segir Hermundur. Blaðamaður benti honum á að tilkynningin hefði samt verið birt á opinni vefsíðu. „Hún er fyrst og fremst ætluð foreldrum sem fengu bréfið,“ svaraði Hermundur og vildi ekki upplýsa frekar um málið.