Sky News segir að í færslu á Instagram hafi Olena hrósað þeim „ótrúlegu“ konum sem séu „andlit“ úkraínskrar mótspyrnu og sagði um leið að sigur muni vinnast. Hún lýsti yfir aðdáun sinni á þeim konum sem berjast nú gegn innrásarliðinu sem og konum sem fara daglega með börn sín í loftvarnarbyrgi án þess að fyllast skelfingu. Þar hafi þær ofan af fyrir börnunum til að dreifa huga þeirra frá stríðinu. Hún gleymdi heldur ekki að hrósa þeim „sem eignast börn í neðanjarðarbyrgjunum“.
Hún sagði að konurnar sjái til þess að lífið haldi áfram og að sigur muni vinnast í baráttunni við Rússa með því að leggja sitt af mörkum í verslunum, við heilsugæslu, samgöngur og á fleiri sviðum.
„Fyrir stríð (það er svo hræðileg og óvenjulegt að segja þetta) skrifaði ég eitt sinn að það séu tveimur milljónum fleiri konur í Úkraínu en karlar. Núna hefur þetta alveg nýja merkingu. Af því að þetta þýðir að mótspyrna okkar er með sérstaklega kvenlegu yfirbragði. Ég dáist að ykkur og hneigi mig fyrir ykkur, ótrúlegu félagar!“ skrifaði hún.
Olena er 44 ára og hefur dvalið í Kyiv með eiginmanni sínum síðan Rússar réðust á Úkraínu. Hann hefur sagt að hann sé efstur á dauðalista Rússa og fjölskylda hans komi þar á eftir. Það hræðir þau ekki og þau hafa staðið með þjóð sinni og hafa hafnað boði Bandaríkjanna um að þeim verði bjargað úr landi.
Þau kynntust þegar Olena stundaði arkitektanám í háskóla og hann við nám í lögfræði. En grínið átti hug hans allan og hann hætti námi og gerðist grínisti að atvinnu. Olena byrjaði að skrifa fyrir grínhópinn sem hann starfaði með og gerði hann frægan. Hún starfar nú hjá úkraínska framleiðslufyrirtækinu Studio Kvartal 95 sem framleiðir margvíslegt efni fyrir hvíta tjaldið og sjónvarp.
Þau gengu í hjónaband 2003 eftir að hafa verið par í átta ár. Þau eiga dótturina Aleksandra, sem fæddist 2004, og soninn Kiril sem fæddist 2013.