Hæstiréttur hefur hafnað beiðni fyrirtækisins Allrahanda GL um að fá áfrýjunarleyfi á úrskurð Landsréttar sem heimilaði ekki endurskipulagningu fyrirtækisns með nauðasamningum. Hefur Allrahanda GL sent frá sér fréttatilkynningu vegna málsins.
Allrahanda GL er ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur farið illa úr úr heimsfaraldrinum. Hefur félagið freistað þess að sækja sér greiðsluskjól með nauðasamningum og fjárhagslegri endurskipulagningu. Þeirri beiðni hefur verið hafnað á tveimur dómstigum og nú hefur Hæstiréttur neitað að taka málið fyrir.
Tilkynning Allrahanda GL vegna málsins er eftirfarandi:
„Hæstiréttur hefur í dag hafnað því að veita Allrahanda GL ehf kæruleyfi vegna úrskurðar Landsréttar um að heimila ekki fjárhagslega endurskipulagningu félagsins með nauðasamningi.
Þessi ákvörðun Hæstaréttar kemur verulega á óvart. Allrahanda GL taldi niðurstöðu Landsréttar byggja á rangtúlkun á tímamörkum í ákvæðum laga nr. 57/2020 um fjárhagslega endurskipulagningu (greiðsluskjól). Nauðsynlegt þótti að fá afstöðu Hæstaréttar til einkennilegrar túlkunar Landsréttar, enda varðar hún ekki aðeins Allrahanda GL heldur öll önnur fyrirtæki sem hafa fengið greiðsluskjól vegna heimsfaraldursins. Tilgangur laga nr. 57/2020 um var að skapa skjól fyrir fyrirtæki sem urðu fyrir miklu tekjutapi af völdum heimsfaraldurs Covid-19, ásamt því að jafna stöðu allra kröfuhafa gagnvart viðkomandi fyrirtækjum.
Allrahanda GL mun nú kanna möguleika á greiðslustöðvun í því skyni að semja við kröfuhafa.
Niðurstaðan hefur ekki áhrif á ferðaskrifstofuna GL Iceland ehf sem selur ferðir undir vörumerki Gray Line.
Helstu röksemdir Allrahanda GL í greinargerð til Hæstaréttar
Í greinargerð Allrahanda GL sem fylgdi kærunni til Hæstaréttar kemur fram að fyrirtækið byggði nauðasamningsfrumvarpið á 20. grein laga nr. 57/2020 (greiðsluskjólslögin) sem heimilaði frestun allra skulda í allt að þrjú ár. Landsréttur vísaði hins vegar í almenn ákvæði gjaldþrotalaga nr. 21/1991 um að veðkröfur skyldi gera upp innan 18 mánaða. Þar sem eldri lög víkja fyrir sérlögum og nýrri lögum taldi Allrahanda GL nauðsynlegt að fá afstöðu Hæstaréttar til þessarar túlkunar Landsréttar.
Ákvörðun Hæstaréttar þýðir að Allrahanda GL býður allan halla af ósamræmanlegum ákvæðum laga nr. 57/2020 og laga nr. 21/1991 auk óskýrrar umfjöllunar í lögskýringargögnum. Hin óbreytta niðurstaða stríðir gegn yfirlýstum markmiðum og tilgangi laga nr. 57/2020.
Allrahanda GL taldi ekki síst með vísan til réttaröryggissjónarmiða að ef úrskurður Landsréttar fengi að standa, þá færi fyrirtækið á mis við þau úrræði sem það ætti rétt á samkvæmt skýru orðalagi ákvæðis 20. gr. laga nr. 57/2020.
Hæstiréttur taldi málið hins vegar ekki hafa nægt fordæmisgildi né varða mikilvæga almannahagsmuni. Sú ákvörðun veldur miklum vonbrigðum.“