Nýja Vínbúðin, sem athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson á og rekur, hefur tekið allar rússneskar vörur úr sölu á vefverslun sinni. Áður mátti finna nokkrar tegundir af vodka í versluninni, meðal annars Smirnoff og Imperia, sem koma frá Rússlandi. Þessar vörur, og þá sérstaklega Smirnoff vodkinn, hafa notið töluverðra vinsælda í vefverslun Nýju Vínbúðarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla.
Ákvörðunin um að fjarlægja vörurnar úr sölu er tekin í þeim tilgangi að mótmæla tilefnislausri innrás rússneskra hersins inn í Úkraínu. Áfram verður boðið upp á rúmlega 20 vörutegundir af vodka frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Íslandi og á næstu dögum verða fleiri tegundir kynntar til sögunnar.
Í frétt Morgunblaðsins í morgun kom fram að það ákvörðun um hvort að ÁTVR hætti sölu á rússnesku áfengi sé undir ráðherra komið. „Við vitum af þessu og erum að skoða hvort við höfum lagaheimild til að taka þetta einhliða úr hillunum, þá er spurning að heyra í birgjunum,“ sagði Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR í samtali við blaðið.