Sigurður G Guðjónsson lögmaður gagnrýnir úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem féll í gær, þar sem þær aðgerðir lögreglu að kalla Aðalsteinn Kjartansson blaðamann til yfirheyrslu og setja hann í stöðu sakbornings voru úrskurðaðar ólögmætar. Rannsóknin varðar stuld á síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, og afritun á gögnum úr honum.
Sigurður spyr hvar í lögum standi að blaðamenn séu undanþegnir réttarstöðu sakbornings. Hann segist vita til þess að í lögum sé blaðamönnum tryggður réttur til að halda leyndum upplýsingum um heimildarmenn en það eigi ekki að útiloka að blaðamaður geti haft stöðu sakbornings í rannsókn sakamáls. Varpar Sigurður G fram í því samhengi frægri setningu úr skáldsögu George Orwell, Animal Farm: „Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir.“
„Hvar er réttarheimild ?
Getur einhver sagt mér hvar í lögum einstaklingar sem bera starfsheitið blaðamenn séu undanþegnir því að geta fengið réttarstöðu sakborninga ? Spurt vegna úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands í gær.
Þekki reglur fjölmiðlalaga og laga um meðferð einka- og sakamála þar sem fjallað er um stöðu blaðamanna við rannsókn einka- og sakamála, þar sem tryggður er réttur þeirra til að halda leyndum upplýsingum um heimildarmenn.
Sé hins vegar hvergi í framangreindum lögum eða öðrum sem ég þekki, svo sem almennum hegningarlögum, að maður ( manneskju) sem hefur starfsheitið blaðamaður geti ekki haft réttarstöðu sakbornings við rannsókn sakamáls svo sem vegna stulds á síma og meðferð og dreifingu viðkvæmra persónuupplýsinga sem fengnar eru úr stolnum síma.
Minni á að lögmaður blaðamannsins kærði mig að sögn til þriggja aðila þegar ég leiðrétti ranga frétt í haust sem leið með gögnum sem ég fékk og hann vill láta rannsaka hvernig ég fékk þau. Þetta er líka sami lögmaður og vildi lögbann á birtingu Vikunnar á viðtali við konu sem lýsti ofbeldi af hálfu fyrrum sambýlismanns.
Kannski hafa meintir handhafar fjórðavaldsins meiri og betri stöðu en almenningur við rannsókn afbrota að mati lögmannsins. Sannast þá enn og aftur ,,Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir.”“