Jafet Sigfinnsson fékk símtal frá Útvarpi Sögu þar sem honum var hótað málsókn. Ástæðan er nýlegt tíst Jafets á Twitter þar sem hann hvetur til sniðgöngu á fyrirtæki sem auglýsa hjá Útvarpi Sögu og vefmiðlinum Fréttin.is. Ástæðan fyrir því er meintur falsfréttaflutningur umræddra miðla.
Æji vitiði ég er kominn með svo mikið leið á falsfrétta áróðri frá rusli eins og Fretin og Útvarp Sugu sem eru öll hættulega auðtrúa eða illa innrætt, líklega bæði, þannig ég ætla að sniðganga öll fyrirtæki sem styrkja þetta lið eða auglýsa hjá þeim. Ábendingar vel þegnar.
— Jafet Sigfinnsson (@jafetsigfinns) February 27, 2022
DV hafði samband við Jafet vegna málsins en hann segist ekki átta sig á því hvaða lagagreinar hann á að hafa brotið. „Þetta meikar ekki alveg sens. Hún talaði eitthvað um að ég væri að brjóta lög af því ég væri að hvetja fólk til að sniðganga fyrirtæki sem styðja þau. Sagði svo að ég hefði birt þetta á Facebook og ég væri að hvetja fólk til að senda skilaboð á fyrirtækin, sem ég gerði ekki,“ segir Jafet.
Hann segist rólegur yfir þessu. „Ég er voða slakur og hef ekki mikla trú á að það sé eitthvað til í þessu. Þetta er aðallega fyndið af því þau tala svo mikið um málfrelsi.“
Jafet segist ekki þola falsfréttir en fréttaflutningur Útvarps Sögu og Fréttarinnar í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu hefur farið sérstaklega í taugarnar á honum:
„Allar falsfréttir fara í taugarnar á mér. En ég er mjög pirraður á þessu Rússarunki þeirra. Þetta er ekki það sem heimurinn þarf á að halda núna. Við þurfum að standa saman og það er ekki hægt að réttlæta það að ráðast inn í friðsamt ríki. Sama hvaða bull þessir Rússar segja og það er merkilegt að það sé einhver hópur sem finnst í lagi að upphefja það, mér finnst það fáránlegt,“ segir Jafet.
„Það er bara matartími hér,“ sagði Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, er DV hringdi í hana. Mátti greina eril í bakgrunninum. Varðandi erindið þá vildi Arnþrúður ekki láta hafa neitt eftir sér nema nákvæmlega þetta:
„Ég fyrirlít svona ofbeldi, ég fyrirlít allt ofbeldið, búið!“