Íslensk símfyrirtæki hafa ákveðið að veita gjaldfrjáls símtöl til Úkraínu.
Vodafone greindi frá ákvörðun sinni á föstudag og í dag ákvað Hringdu að fylgja þeim eftir. Ekki leið svo á löngu áður en Síminn og Nova slóust í hópinn.
Athygli hafði verið vakin á því á samfélagsmiðlum að hér á Íslandi býr fólk sem á ástvini í Úkraínu sem þau eru í stöðugum samskiptum við. Slíkum símtölum fylgi þó gífurlegur kostnaður.
Besti vinur minn og kona hans eru frá 🇺🇦. Þau hringja út til fjölsk sinnar á hverjum degi á 3 klst fresti. Hvert símtal er að kosta 5-7þusund… Ég skora a símafyrirtæki til að bjóða fólki að hringja frítt sem þess þurfa a meðan a þessu stendur, ef það er ekki þegar í vinnslu !
— ÚrsúlaÓskLindudóttir 🇺🇦 🇵🇸 (@OskUrsula) February 27, 2022
Vodafone, líkt og áður segir, tilkynntu ákvörðun sína á föstudag. Í kjölfarið var skorað á önnur símfyrirtæki í landinu að bregðast við og hefur Hringdu nú svarað kallinu.
Fylgjum góðu fordæmi Vodafone og veitum núna gjaldfrjáls símtöl til Úkraínu til 15. mars og lengur ef þörf krefur. Breytingin gildir bakvirkt frá 22. feb.
— Hringdu (@hringdu) February 28, 2022
Nova brugðust við á ellefta tímanum í morgun.
Við látum ekki okkar eftir liggja! Í ljósi ástandsins í Úkraínu fellum við niður kostnað á símtölum og SMS til Úkraínu út mars.
— Nova (@nova_island) February 28, 2022
Og Síminn fylgdi fast á eftir:
Ljúft og skylt að taka þátt, öll símtöl og sms til Úkraínu eru komin á 0 kr. bæði úr farsíma og heimasíma. Gildir afturvirkt frá 1. febrúar. Ef íslensk númer eru í Úkraínu í reiki fellum við einnig niður öll gjöld vegna þessa.
— Síminn (@siminn) February 28, 2022
Síðan fréttin birtist fyrst hafa bæði Nova og Síminn slegist í för með Vodafone og Hringdu og hefur fréttin verið uppfært til að endurspegla það.