Hinrik Ingi Óskarsson, fyrrverandi keppandi í Crossfit og einkaþjálfari, var í dag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir frelsissviptingu, líkamlegt ofbeldi, brot á nálgunarbanni, skemmdarverk á bíl, fíkniefnabrot og fleira.
Honum var meðal annars gefið að sök að hafa svipt mann frelsi sínu í rúma klukkustund mánudagskvöldið 23. nóvember 2020, sótt manninn á heimili sitt, neytt hann upp í bíl, ekið með honum að ísbúð, tekið af honum snjallsíma og slegið hann með krepptum hnefa í búkinn. Var síðan ekið niður í bílakjallara í Hamraborg þar sem þolandinn reyndi að flýja undan Hinrik Inga en hann náði honum og sló hann með krepptum hnefa í búkinn auk þess að taka hann hálstaki og þrengja að öndunarvegi.
Hinrik Ingi hótaði manninum því að gera fjölskyldu hans mein, sem og hundi, og kveikja í húsnæði og bílum í eigu fjölskyldunnar.
Þá er hann sakaður um að hafa slegið mann hnefahöggi í andlitið í anddyri íbúðarhúsnæðis á Seltjarnarnesi vorið 2020. Hlaut maðurinn nefbrot, tognun á kjálka og mar á kinn.
Ennfremur var hann sakaður um að hafa skemmt bíl sem var í bílagleymslu við Kringluna. Gerðist það í upphafi janúar 2021.
Þá var Hinrik Ingi sakaður um brot á nálgunarbanni en hann hringdi 10 sinnum í aðila sem var með nálgunarbann á hann.
Þá var hann sakaður um ýmis umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.
Hinrik Ingi játaði öll brot sín skýlaust fyrir dómi.
Hann var dæmdur í 15 mánaða fangelsi en 12 mánuðir eru skilorðsbundnir. Hann var dæmdur til að greiða þolendum samtals 650 þúsund krónur í miskabætur, sem og málskostnað.
Hinrik Ingi hnepptur í síbrotagæslu – Gekk berserksgang á Reykjanesbraut