Forseti Úkraínu, Volodimír Zelenskí, var ómyrkur í máli í dag þegar hann ræddi við leiðtoga Evrópusambandsins í gærkvöldi í gegnum fjarfundabúnað.
Þar tilkynnti hann þeim að þetta gæti verið þeirra síðasta samtal en hann telur að Rússar ætli sér að ráða hann af dögum.
„Þetta gæti verið í síðasta sinn sem þið sjáið mig á lífi,“ sagði hann í samtalinu samkvæmt blaðamanninum Barak Ravid sem segist hafa fengið þetta staðfest frá tveimur heimildarmönnum í Úkraínu sem hafi verið upplýstir um símtalið og eins hefur forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, staðfest frásögnina.
BREAKING: In a video conference call last night Ukraine President Zelensky told EU leaders: "This might be the last time you see me alive", two sources briefed on the call told me
— Barak Ravid (@BarakRavid) February 25, 2022
Zelenskí var þó enn á lífi rétt fyrir klukkan 17:00 á íslenskum tíma í dag ef marka má nýja færslu hans á Instagram.
Þar deilir hann myndskeiði af sér með textanum: „Við erum hér. Við erum í Kænugarði. Við erum að verja Úkraínu.“
Fjölskylda Zelenskís er nú í felum, en sjálfur hefur Zelenskí sagt að hann ætli ekki að yfirgefa Kænugarð. „Ég ætla að vera hér með mínu fólki“
Þó er talið að hann dvelji ekki í forsetabústaðnum heldur hafi bækistöðvar í leynilegum sprengjukjallara en eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan dvelur hann ekki þar öllum stundum, hafi myndskeiðið verið tekið upp í dag.
Nú á öðrum degi innrásarinnar í Úkraínu er staðan svört fyrir Úkraínumenn en rússneski herinn hefur í dag sótt að höfuðborginni, Kænugarði, og hefur sprengjum ringt yfir svæðið.
Varnarmálaráðuneytið hefur beðið íbúa borgarinnar að halda sig innandyra og útbúa þar Molotov kokteila (bensínsprengjur). Um 18 þúsund hlöðnum skotvopnum hefur verið deilt innan svæðisins og hefur öllum karlmönnum á aldrinum 18-60 ára verið bannað að yfirgefa landið.
Eins var Úkraínumönnum tilkynnt að allir þeir sem vilja berjast geti nú gengið til liðs við herinn, sama á hvaða aldri þeir eru.
Amnesty International telja mögulegt að Rússar séu að fremja stríðsglæpi í Úkraínu og hafa kallað eftir því að forseti Rússlands, Vladimir Pútín, hætti árásum á íbúasvæði. Þvert á meiningar Rússa um að innrásinni sé ekki beint gegn óbreyttum borgurum hafa borist fregnir af því að sprengjur hafi fallið í þéttbýliskjörnum, á sjúkrahús og heilbrigðisráðherra Úkraínu tilkynnti í dag að Rússar hafi skotið á sjúkrabíla og á geðsjúkrahús.
NATO-ríki ætla nú að fjölga í herliði sínu í austur Evrópu og Evrópusambandið hefur ákveðið að beita harðari efnahagsþvingunum og ætlar að frysta bankareikninga Pútíns sem og utanríkisráðherra Rússlands, Sergeys Lavrov. Evrópuráðið ákvað í dag að meina Rússlandi tímabundið þátttöku í ráðherranefndinni og Evrópuráðsþinginu. Rússland er eftir sem áður aðildarríki að Evrópuráðinu og sáttmálum þess á borð við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Úkraínsk stjórnvöld hafa kallað eftir því að Úkraínumenn hætti að deila myndskeiðum sem geti varpað ljósi á staðsetningu vopna og úkraínska herliðsins, en gífurlegt magn af myndskeiðum og myndum hafa birst undanfarna tvo daga. Íbúar hafa jafnvel verið með beinar útsendingar á samfélagsmiðlum á borð við TikTok og Reddit til að sýna frá aðstæðum.
Austur-Evrópski miðillinn NEXTA segir að á aðeins 48 klukkustundum hafi rúmlega 50 þúsund manns flúið Úkraínu yfir til landa á borð við Pólland og Móldóvu. Til að setja það í samhengi má nefna að í Kópavogi búa tæplega 40 þúsund manns.
The Telegraph er með fréttamann í Úkraínu og birtu nýlega myndskeiðið hér að neðan til að sýna aðstæður á átakasvæði í austur Úkraínu.
🔴Footage filmed by @Telegraph shows the reality for Ukrainian soldiers on the front line.@RolandOliphant describes the scene of a bloody battle in eastern Ukrainehttps://t.co/0kTAh4q2s0 pic.twitter.com/FaS6Yqy2e8
— The Telegraph (@Telegraph) February 25, 2022