Alma Björk Ástþórsdóttir, stofnandi grasrótarhópsins Sagan okkar, sem berst fyrir réttindum barna í skólakerfinu, segir í grein sem birtist á Vísir.is í morgun:
„Á vefsíðu Kennarasambands Íslands mátti sjá æsifréttamennsku af verstu sort í síðustu viku þar sem greint var frá því að kennara hefðu verið dæmdar milljónir í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar í kjölfar þess að hafa löðrungað nemanda.
Í fréttinni var greint frá viðkvæmum persónulegum upplýsingum 14 ára gamallrar stúlku og að auki greint frá staðháttum þó dómstólasýslan sjálf hefði ekki talið við hæfi að greina frá þeim.“
Mikið hefur verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum, ekki síst á dv.is, en um síðustu helgi stigu þar foreldrar stúlkunnar sem í hlut á fram, þar sem þeim blöskrað einhliða frásagnir af atvikinu og umræður þar sem dóttir þeirra var máluð sem óalandi og óferjandi vandræðabarn, þegar raunin væri sú að kennarinn hefði átt upptökin að átökunum. Einnig gagnrýndu þau kennarasambandið harðlega fyrir að birta persónugreinanlegar upplýsingar í frétt sinni og vísa þannig á dóttur þeirra, en slíkar upplýsingar voru ekki í dómnum sjálfum sem birtist á vefsíðu dómstólanna.
Í gær birti kennarasambandið afsökunarbeiðni vegna fréttaflutnings síns af málinu, eins og DV greindi frá.
Alma Björk gefur lítið fyrir þessa afsökunarbeiðni kennarasambandsins og segir hana auma:
„Eftir gagnrýnisraddir samfélagsins gerir Kennarasamband Íslands auma tilraun til þess að afsaka þetta framferði sitt.
Sambandið biðst afsökunar á að hafa dregið athyglina að barninu með þessum hætti. Þá fjallar sambandið um það bjargarleysi sem ríkir í skólasamfélaginu og að það geti valdið mistökum í erfiðum málum. Mikilvægt sé að taka ábyrgð og fá tækifæri til þess að gera betur en að sveitarfélagið hafi gert kennaranum ókleift að standa undir þeirri ábyrgð, þar sem honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum.
Með öðrum orðum þá þykir kennarasambandinu sem og umræddum héraðsdómara við hæfi að kennari sem ekki hefur þolinmæði til þess að takast á við nemanda í vanlíðan, kennari sem ekki hefur það sem þarf til þess að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og kennari sem á það til að grípa til ofbeldis, eigi skilið að fá að vinna áfram í umhverfi með einum viðkvæmasta hóp landsins, í ákaflega krefjandi starfsumhverfi skóla án aðgreiningar.“
Alma Björk bendir á að Kennarasambandið hafi barist með kennara sínum í málinu og fagnað skaðabótadómi honum í vil en samtök á borð við UNICE, Barnaheill og Heimili og skóli hafi harmað dóminn.
„Ofbeldi kennarans var afsakað með einhverjum óskiljanlegum hætti, ekki var litið til Barnasáttmálans né réttinda barnsins yfir höfuð. Ekki var heldur minnst á valdaójafnvægið á milli barnsins og kennarans,“ segir Alma Björk en grein hennar má lesa hér.