Það vakti athygli í kvöldfréttum RUV í gær þegar fréttamaðurinn Dagný Hulda Erlendsdóttir ræddi við sendiherra Rússlands á Íslandi á móðurmáli hans, rússnesku.
Sendiherrann, Mikhail V. Noskov, sagði í viðtalinu að ekki væri um innrás Rússa á yfirráðasvæði Úkraínu að ræða heldur væru aðgerðirnar til að tryggja öryggi rússneskra borgara, bæði í Úkraínu og Rússlandi. Hann sagði Rússa ekki óttast hefndaraðgerðir og að markmiðið væri að draga úr herstyrk Úkraínu.
Dagný komst afar vel frá viðtalinu en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún talar rússnesku á RUV þar sem hún hefur nú starfað í bráðum fimm ár. Áður hefur hún rætt bæði við mótælendur við sendiraáðið og konu frá Hvíta-Rússlandi á rússnesku.
Lærði í Pétursborg
„Eftir stúdentspróf lærði ég rússnesku í Háskóla Íslands í tvö ár. Á þriðja árinu fór ég til Pétursborgar, í ríkisháskólann þar, ásamt nokkrum íslenskum nemum sem fengu smá styrk frá rússneska ríkinu til að stunda þar nám,“ segir Dagný. Hún dvaldi í Pétursborg veturinn 2000-2001 og þar var andrúmsloftið annað en á Íslandi. Mikil kreppa var þar allan tíunda áratuginn og leifar hennar enn til staðar. „Þetta var stundum erfitt en ég hafði gott af þessu,“ segir hún.
Dagný hefur lengið verið heilluð af rússnesku. „Þetta er afskaplega fallegt tungumál. Svolítið flókið þannig að það er dálítið erfitt að læra það, en það er líka gaman. Sovétríkin voru enn við lýði þegar ég var krakki og mér fannst þetta vera lokaður en áhugaverður heimur sem mig langaði að skilja betur. Íbúar Sovétríkjanna þurftu að bíða í biðröðum eftir mat, en á sama tíma komu þaðan allir bestu skákmennirnir, bestu íþróttamennirnir og bestu rithöfundarnir.“
Ekkert meira spennandi
Og hún játar að hafa átt sér draum. „Æskudraumurinn var alltaf að vera fréttaritari í Rússlandi. Þegar ég var krakki fannst mér það vera það mest spennandi sem ég gæti gert,“ segir hún.
Það er auðvelt að tapa niður tungumálakunnáttu þegar fólk notar tungumálið ekki reglulega en Dagný hefur farið í endurmenntun í rússnesku. Árin 2018 og 2019 fór hún sitthvora vikulanga ferðina í tungumálaskóla í Rússlandi en þegar heimsfaraldurinn kom sneri hún sér að námskeiðum á netinu. „Ég fer alltaf reglulega í tíma. Það er gott og gaman að halda sér við,“ segir hún.
Þá hefur hún fengið afar góð viðbrögð við viðtalinu við sendiherra Rússa. „Ég hef fengið nokkur skilaboð frá fólki sem sá viðtalið,“ segir Dagný.