Síðan innrás Rússlands í Úkraínu hófst í morgun hafa fjölmörg ríki lýst yfir stuðningi við Úkraínu. Þá hafa ýmsar stofnanir, stjórnmálaflokkar og fyrirtæki um allan heim keppst við að senda svipuð skilaboð.
Furðulegustu skilaboðin koma þó ábyggilega frá bandarísku leikkonunni AnnaLynne McCord en hún er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt sem Naomi Clark í sjónvarpsþáttunum vinsælu 90210.
Í myndbandi sem McCord birti á Twitter-síðu sinni í dag sendir hún Vladimir Pútín, forseta Rússlands, skilaboð í ljóðaformi. „Kæri Vladimir Pútín forseti. Mér þykir svo leitt að ég var ekki móðir þín. Ef ég hefði verið móðir þín þá hefðirðu verið svo elskaður,“ segir hún í upphafi myndbandsins og svo lýsir hún því hvernig hún hefði alið Pútín upp.
„Ég get ekki ímyndað mér hvernig þér líður í hjartanu en ég veit að ef ég hefði verið móðir þín þá hefði ég byrjað á því að gera þig meðvitaðan um hversu megnuð vera ljóssins þú gætir verið ef hugur þinn væri frjáls frá ofbeldinu sem þú hefur séð tveggja eða þriggja ára gamall. Ég trúi því ekki að ég hafi fæðst of seint og á öðrum stað því ég hefði elskað þig svo mikið.“
Myndbandið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan en það hefur vakið töluverða athygli á Twitter síðan það var birt. Fjölmargir netverjar hafa furðað sig á myndbandinu og gagnrýnt það í athugasemdunum. „Hvað í fjandanum er þetta?“ spyr til að mynda einn netverji. „Hvernig gastu tekið þetta upp OG ákveðið að birta þetta?“ spyr svo annar.
Dear Mister President Vladimir Putin… pic.twitter.com/LbDFBHVWJf
— AnnaLynne McCord (@IAMannalynnemcc) February 24, 2022