Landlæknisembættinu hefur verið gert að greiða níu milljóna sekt vegna brota embættisins á lögum og reglum um opinber innkaup er fyrirtækið gekk til samninga við Origo vegna þróunar á heilbrigðiskerfinu Heklu, sem og þróun á Heilsuveru og fjarfundalausna.
Frá þessu greindi vefurinn Innherji nú í morgun og vísar í úrskurðinn sem Innherji hefur undir höndum.
Fyrirtækið Kara Connect ehf. kærði embættið til kærunefndar útboðsmála sem komst að fyrrgreindri niðurstöðu í gær. Mun Landlæknisembættið jafnframt þurfa að greiða Kara Connect 2 milljónir í málskostnað.
Segir í úrskurðinum að innkaupin án útboðs hafi numið yfir einum milljarði á fjögurra ára tímabili. Þá kemur fram að viðskiptin hafi varað árum saman og jafnvel lengur en tekið er til í úrskurðinum sjálfum.
Stofnandi Kara Connect er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi. Lögmaður fyrirtækisins, Lára Herborg Ólafsdóttir, sagði í samtali við Innherja að ljóst væri að farið hafi verið illa með almannafé svo árum skipti.