DV hefur nú undir höndum greinargerð Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sem lögð var fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær þar sem tekin var fyrir kæra blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar þar sem þess er krafist að boðaðar yfirheyrslur lögreglunnar yfir honum, þar sem hann hefur stöðu sakbornings, verði úrskurðaðar ólögmætar. Dómari leggur nú mat á málflutninginn og gögn málsins og úrskurðar er að vænta á næstu dögum.
Fréttir voru birtar í gær upp úr greinargerðinni en víða fór sá misskilningur í gang í samfélagsmiðlaumræðunni að blaðamennirnir væru grunaðir um dreifingu á ótilgreindu klámefni sem sími Páls geymdi. Það sem lögreglan er að vísa til er kynlífsefni með Páli sjálfum og konu. Þetta er staðfest í greinargerð lögreglu og þar segir að Páll hafi staðfest tilvist efnisins.
Eins og kom fram í gær játaði manneskja sem er nákomin Páli í lögregluyfirheyrslum að hafa byrlað honum svefnlyfi og tekið síma hans. Ennfremur að hún hafi komið símanum í hendur ótilgreinds fjölmiðlamanns. Segir lögreglan að manneskjan, sem kölluð er X í greinargerðinni, hafi afhent fjölmiðlamanni símann sjálfan en ekki gögn úr honum. Því liggi fyrir að fjölmiðlar sem tóku við símanum hafi afritað hann. Í greinargerðinni segir:
„Ekki er ljóst hvort síminn var afritaður að hluta eða að öllu leyti en ljóst er að þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var þó að þeir hafi bara afritað hann að hluta. Það er ljóst að gögnum úr þessum afritaða síma var dreift á milli fjölmiðla manna, þ.á.m. hugsanlega kynlífsmyndböndunum.“
Ennfremur segir:
„X segir að í síma brotaþoola hafi verið mikið af myndböndum sem hann telji að séu af brotaþola í kynlífsathöfnum. Lögregla hefur staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit af slíkra myndbanda hafi verið sent úr símanum. Brotaþoli hefur staðfest við lögreglu að í síma hans hafi verið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum.“
Gagnstætt því sem haldið var fram í gær var þinghald í málinu opið. DV hefur undir höndum minnispunkta lögmannsins Valdemars Karls Kristinssonar, sem sat réttarhöldin. Valdemar er lögmaður meints brotaþola, Páls Steingrímssonar. Segir Valdemar að lögmaður Aðalsteins hafi lagt áherslu á vernd tjáningarfrelsisins í málflutningi sínum og að framganga lögreglu í málinu væri aðför að því. Aðalsteinn hafnar því að símaþjófurinn X sé heimildarmaður hans og virðist hann líta á einhvern annan blaðamann sem hefur stöðu sakbornings í málinu sem heimildarmann sinn. Ekki er þó hægt að slá neinu föstu um það og augljóslega gefur Aðalsteinn ekki upp heimildarmann sinn í málinu.
Lögreglustjóraembættið krafðist þess að málinu yrði vísað frá en til vara að viðurkennt yrði að lögreglunni væri rétt og skylt að halda rannsókninni áfram. „Aðalkrafa varnaraðila var byggð á þeim rökum að dómstólar hér landi hafa ekki heimildir til að segja lögreglu hvernig hún eigi að haga sínum rannsóknum. Hér á landi ríkir ákæruréttarfar, ekki rannsóknarréttar líkt og árum áður þegar dómarar bæði rannsökuðu og dæmdu málin. Dómstólar hér á landi dæma um réttmæti rannsóknaraðgerða lögreglunnar eftir að þær hafa verið framkvæmdar og reynir lögreglan að fylgja þeim reglum sem dómstólar setja í dómum sínum. Það er s.s. ekki dómstóla að ákveða hverja lögreglan kallar í skýrslutöku hverju sinni og hvort þeir séu boðaðir sem vitni eða sakborningar,“ segir í endursögn lögmannsins.
Valdemar telur að þáttur Aðalsteins í málinu sé veigaminnstur af fjórmenningunum og líklegt sé að staða hans breytist úr sakborningi í vitni eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.
Lögregla telur að blaðamennirnir hafi mögulega gerst brotlegir við 228. gr. almennra hegningarlaga, en fyrsta málsgrein hennar er svohljóðandi:
„Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.“
Lögreglustjóri bendir á í greinargerð sinni að um sé að ræða brot sem hafi að mestu verið refsivert á Íslandi síðan hegningarlögin voru sett árið 1940, ef ekki lengur. Það sem sé nýtt við refsiákvæðið sé að eftir 17. febrúar 2021 sæti svona athæfi ákæru. Fyrir þann tíma var atferlið refsivert en brotaþoli sjálfur varð að höfða einkarefsimál.