„Rússneski herinn hefur hafið ógnvænlega árás á fólkið í Úkraínu,“ voru upphafsorð Joe Biden bandaríkjaforseta á blaðamannafundi sem hófst klukkan 18:30 að íslenskum tíma. Blaðamannafundurinn er haldinn vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.
Biden segir Rússa hafa ráðist inn í Úkraínu án rökstuðnings og að árásin sé ónauðsynleg. „Þetta er þaulskipulögð aðgerð,“ segir hann. „Vladimir Putín hefur verið að skipuleggja þetta mánuðum saman.“
Þá nefnir hann það sem Rússland hefur verið að gera undanfarið til að undirbúa árásina. „Við höfum varað við þessu í vikur og nú er þetta að raungerast að miklu leyti eins og við bjuggumst við.“
Ljóst er að Biden fordæmir árásina en hann sendir Pútín og Rússlandi skýr skilaboð á blaðamannafundinum. „Pútín er árásarmaðurinn. Pútín valdi þetta stríð og nú þarf hann og land hans að glíma við afleiðingarnar,“ segir hann og fer svo yfir nýjar efnahagsaðgerðir sem Bandaríkin ætla að setja á Rússland.
„Ég vil vera skýr. Bandaríkin eru ekki ein í þessu,“ segir forsetinn svo og fer yfir öll löndin sem taka þátt í efnahagsaðgerðunum með Bandaríkjunum en skerða á getu Rússa til að eiga í viðskiptum með dollara, evrur, pund og jen.
Þá segir Biden að bandaríski herinn sé ekki að fara til Evrópu til þess að berjast í Úkraínu. Hann segir þó að bandaríski herinn mun að sjálfsögðu taka þátt í að vernda aðildarríki NATO ef Rússland ógnar þeim.
Watch live as I deliver remarks on Russia’s unprovoked and unjustified attack on Ukraine. https://t.co/fsc84Sq6F6
— President Biden (@POTUS) February 24, 2022