Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður, beygði af í beinni útsendingu í aukafréttatíma RUV í hádeginu þar sem hann flutti fréttir frá Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem hann er staddur ásamt Ingvari Hauki Guðmundssyni tökumanni.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipaði innrás í Úkraínu í nótt. Hófust þá umfangsmestu hernaðaraðgerðir gegn öðru ríki síðan í seinni heimsstyrjöld og marka þær upphaf stríðs í Evrópu.
Landamæri Úkraínu í austurhlutanum liggja að Rússlandi en götur í vesturátt eru víða stappaðar í Kyiv þar sem fólk reynir að yfirgefa borgina eftir að tilkynnt var um innrásina, og loftvarnarflautur óma.
Í fréttatímanum voru birtar upptökur af viðtölum við almenna borgar í Kyiv um upplifun þeirra af þeirri stöðu sem komin er upp og hvernig það sér framhaldið fyrir sér á þessum óvissutímum.
Því næst var skipt yfir í beina útsendingu.
„Skömmu eftir þessi viðtöl, meðan við settumst upp á hótel til að reyna að senda þau í hús, var hótelið rýmt í miklu ofboði og okkur stefnt á miklum hraða ofan í neðanjarðarlestakerfið, sem er í raun sprengjubyrgi borgarbúa hér, og þar sá maður einhvern veginn hvernig fólk var svona eins og blöðrur sem loftið var að leka úr,“ sagði Ingólfur Bjarni. Hann varð síðan grátklökkur þegar hann lýsti því að eldri kona hafi þarna horft í augun á honum og rétt upp sigurmerki með tveimur fingrum. „Það var eiginlega bara átakanlegt. Og ung kona sem sag hinum megin í [neðan]jarðarlestinni skrollaði í gegn um símann sinn og tárin fóru að trilla, það er erfitt að finna ekki til með fólki sem finnst eins og það hafi verið yfirgefið,“ sagði hann.
Ingólfur Bjarni tárast í beinni from DV Sjónvarp on Vimeo.