Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birti fyrir stundu hugvekju á Facebooksíðu sinni í tilefni af árás Rússa inn Úkraínu. „Ógnvænleg og ótrúleg ótíðindi bárust frá Úkraínu í nótt sem leið. Innrás hófst í landið, frá Rússlandi, Belarús og Krímskaga sem rússnesk stjórnvöld innlimuðu með valdi fyrir átta árum,“ skrifar hann.
Hann vekur athygli á því að árásin sé fordæmd víða um heim, forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra hafi talað skýrum róm fyrir hönd stjórnvalda og að afstaða þingsins liggi sömuleiðis fyrir.
„Við Íslendingar erum smáþjóð í hörðum heimi. Við viljum að alþjóðalög séu virt, að stórveldi brjóti ekki nágranna undir sig. Í dag er einn þjóðhátíðardaga Eistlendinga, vina okkar við Eystrasalt. Þennan dag árið 1918 lýstu þeir yfir sjálfstæði. Í febrúar 1991 fyrir rúmum 30 árum ítrekaði Alþingi viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens. Eistland, Lettland og Litháen endurheimtu sjálfstæði sitt og frelsi árið 1991, sama ár og Úkraína varð sjálfstætt ríki – sjálfstætt og fullvalda ríki eins og það er enn í dag og á að vera,“ skrifar Guðni.
Hann segir að við eigum að standa með ráðamönnum og almenningi í Úkraínu, í Eystrasaltslöndunum og víðar.
„Aldnir Rússar þekkja stríð af eigin raun. Ég trúi því að allur almenningur þar eystra vilji frið og frelsi, mannréttindi og lýðræði. Í áranna rás hafa Íslendingar notið farsælla viðskipta við stjórnvöld í Moskvu og sjálfur á ég Rússa að vinum, naut þess á sínum tíma að læra rússnesku um skeið. Ég dáist að mörgu í rússneskri menningu, dáist að þeirri seiglu sem einkennir rússneska þjóð. En innrás í annað ríki má aldrei líða,“ segir Guðni.