fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Dalvíkurmálið: Kennarasambandið biðst afsökunar á frétt sinni sem beindi athygli að barni á Dalvík

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 24. febrúar 2022 15:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kennarasamband Íslands befur birt yfirlýsingu þar sem beðist er afsökunar á frétt sem birtist á vef sambandsins í síðustu viku. Þar var greint frá niðurstöðu skaðabótamáls sem fyrrverandi íþróttakennari höfðaði á hendur Dalvíkurbyggð vegna fyrirvaralauss brottrekstrar úr starfi eftir að kennarinn löðrungaði 13 ára gamlan nemanda. Uppsögnin var dæmd ólögmæt og kennaranum dæmdar 8 milljónir króna í skaðabætur. Í frétt sinni greindi kennarasambandið frá því hvar atvikið hafði gerst og vísaði þar með á barnið sem í hlut átti. Hefur þetta vakið harða gagnrýni.

Þess má geta að umrædd frétt hefur verið fjarlægð af vef sambandsins. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Skóli er vettvangur sem fær til úrlausnar mörg af þyngstu vandamálum samfélagsins og skortir oft þær bjargir sem duga. Við erfiðar aðstæður er óumflýjanlegt að upp komi flókin og erfið mál. Við slíkar aðstæður koma upp mistök.  Bætt starfsumhverfi og aukinn stuðningur annarra kerfa við skólakerfið er eina langtímalausnin á þeim vanda. Á því bera yfirvöld ábyrgð. Allir innan hvers skólasamfélags bera þó líka persónulega ábyrgð. Mikilvægur þáttur í því að standa undir slíkri ábyrgð er að viðurkenna það þegar okkur verður á og leita leiða til að gera betur.

Í málinu sem um ræðir var viðkomandi kennara gert ókleift að standa undir ábyrgð sinni og bæta sig vegna þess að sveitarfélagið gerði þau mistök að brjóta mikilvæga grundvallarreglu og bregðast við með hætti sem stangaðist á við lög. Það er ótækt í viðkvæmum málaflokki. Af því þarf sveitarfélagið að læra.

Þegar Kennarasamband Íslands fjallaði um málið á vef sínum var vakin athygli á þessu en um leið var vitnað í dóminn og sagt frá atvikum eins og þau voru færð til bókar af hálfu sveitarfélagsins og kennarans. Það hefðum við ekki átt að gera enda skiptu þær lýsingar engu máli um grundvallaratriði málsins en drógu einmitt athygli að barni. Það átti ekki að gera. Á því biðjumst við afsökunar. Af því munum við læra.

Hófsemd og stilling í erfiðum málum skiptir máli. Við verðum að taka viðvörunarljósin alvarlega og styðja við öryggi og velferð þeirra sem í skólunum starfa. Við viljum standa vörð um samfélag sem grundvallast á sanngjörnum leikreglum, virðingu og reisn.

Við getum öll gert mistök. Við getum öll þurft stuðning. Við getum öll gert betur fáum við tækifæri til þess. Við heitum því að það mun Kennarasamband Íslands gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt