Eftir þátttöku í söngvarakeppni á vegum K.K. sextettsins 1960 söng Þorsteinn með hljómsveitinni í tæpt hálft ár. Hann stofnaði síðan hljómsveitina Beatniks með nokkrum vinum sínum í Keflavík.
Hann flutti síðan til Kaupmannahafnar og stundaði myndlistarnám. Hann söng með hljómsveitum þar í landi og kom meðal annars fram á sumartónleikum í Hróarskeldu 1964. Hann var byrjaður að skrifa fyrir Alþýðublaðið á þessum tíma og tók meðal annars viðtöl við Bítlana og The Rolling Stones.
Eftir að hann flutti heim 1965 gerðist hann blaðamaður og byrjaði að semja söngtexta fyrir ýmsar hljómsveitir, til dæmis Río tríó, Dáta og Hljóma. Hljómsveitunum fjölgaði svo sem og textunum og fóru þeir að skipta hundruðum og eru nú orðnir um eitt þúsund.
Meðal þeirra texta sem Þorsteinn hefur samið eru:
Ljúfa líf
Glugginn
Ég elska alla
Heim í Búðardal
Fjólublátt ljós við barinn
Lífsgleði
Dans, dans, dans
Söngur um lífið
Matti Matt og Heiða Ólafs munu flytja þessi lög og fleiri í Salnum í Kópavogi á föstudaginn klukkan 20. Þorsteinn mun sjálfur segja sögurnar á bak við textana og rifja upp eftirminnilega tíma úr tónlistarsögunni.