Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir konunni að lögreglan hafi komið á vettvang og ljósmyndað hann eftir að tilkynnt var um innbrotið. Á upptökum úr eftirlitsmyndavél í nágrenni við húsið sást að þjófurinn hafði meðal annars haglabyssu á brott með sér en hjónin höfðu ekki áttað sig á því fyrr en það sást á upptökunni.
Sex vikum eftir innbrotið hafði kona samband við hana og benti henni á að hjólið hennar væri nú auglýst til sölu á Facebook en það var auðþekkjanlegt vegna sérsmíðaðra festinga á því.
Konan ræddi við lögregluna og sagði að þau hjónin myndu fara og sækja hjólið ef lögreglan kæmi með og féllst hún á það. „Sem þeir samþykktu, af því að þá höfðu þeir tækifæri til að gera húsleit hjá þessum manni til að leita að byssunni,“ er haft eftir henni.
Lögreglumenn biðu svo í hvarfi á meðan eiginmaður hennar fór og fékk að prófa hjólið. Lögreglan lét síðan til skara skríða og handtók þjófinn og gerði húsleit hjá honum. Haglabyssan fannst ekki við þá leit.
Haft er eftir konunni að þau hjónin hafi óttast um öryggi sitt á meðan á þessu stóð en þetta hafi verið eina leiðin til að fá lögregluna til að taka þátt í að endurheimta þýfið.
Nánar er hægt að lesa um málið á vef Fréttablaðsins.