Afskipti voru höfð af tveimur mönnum síðdegis í gær og gærkvöldi vegna vörslu fíkniefna. Hald var lagt á ætluð fíkniefni í báðum málum. Skömmu fyrir miðnætti var ungur maður handtekinn í Grafarholti en hann var í annarlegu ástandi. Hann er grunaður um hótanir og fleira og var vistaður í fangageymslu.
Á sjötta tímanum í gær varð árekstur í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki en annar ökumaðurinn missti stjórn á bifreið sinni í hálku og fór bifreið hans í veg fyrir aðra bifreið og valt síðan á hliðina. Báðar bifreiðar voru óökufærar og voru fjarlægðar með dráttarbifreið.
Í Mosfellsbæ féll kona af hestbaki síðdegis í gær. Hún er hugsanlega ökklabrotin.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur í gær en hann ók á 83 km/klst á Stekkjarbakka en þar er leyfður hámarkshraði 50 km/klst.
Tveir ökumenn voru handteknir í nótt grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var staðinn að ítrekuðum akstri sviptur ökuréttindum. Hann reyndi að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp rangar persónuupplýsingar.