Mikið hefur verið fjallað um Samherja-símamálið svokallaða en nú hafa komið fram nýjar upplýsingar í málinu. Stundin greinir frá því að lögreglan hafi fengið fram játningu hjá einstaklingi sem segist hafa byrlað Páli Steingrímssyni, starfsmanni Samherja, með svefnlyfjum. Þessi sami einstaklingur tók svo síma hans og dreifði efni úr honum til fjölmiðla.
Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna fjórir blaðamenn séu með réttarstöðu sakbornings í málinu en í frétt Stundarinnar um málið kemur sú ástæða fram. Blaðamennirnir fjórir sem um ræðir eru Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður Stundarinnar Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Kjarnans.
Ljóst er að ekki er um að ræða þjófnaðarbrot heldur miðlun klámefnis og brot á friðhelgi. „Lögreglan hefur staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit slíkra myndbanda hafi verið sent úr símanum. Brotaþoli hefur staðfest við lögreglu að í síma hans hafi verið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum,“ segir í kröfugerð lögreglu.
„Þar sem X afhenti ekki gögn úr símanum heldur símann sjálfan liggur fyrir að fjölmiðlar sem tóku við símanum afrituðu hann. Ekki er ljóst hvort síminn var afritaður að hluta eða að öllu leyti en ljóst er að þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var þó þeir hafi bara afritað hann að hluta. Það er ljóst að gögnum úr þessum afritaða síma var dreift á milli fjölmiðlamanna, þ.á.m. hugsanlega kynlífsmyndböndum.”