Það var svokölluð rússnesk kosning fyrr í dag þegar allir 153 öldungardeildarþingmenn á rússneska þinginu samþykktu beiðni Vladmír Pútíns forseta um að nota megi her landsins utan landamæranna. Þetta rennir enn frekari stoðum undir að Rússar búi sig undir allsherjar innrás í Úkraínu. Pútín segist einungis vinna að friði en komi til innrásarinnar er öryggi allrar Evrópu í hættu og hefur spennan innan álfunnar ekki verið meiri síðan við lok Kalda stríðsins.
Pútín hefur hvatt Úkraínustjórn til þess að hætta við áform sín um að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) og vera þess í stað hlutlaust ríki; raunar hefur hann krafist þess að fá skriflega tryggingu fyrir því að Úkraína gangi ekki í NATO.
Þetta er afar flókið mál með langa sögu en Una Sighvatsdóttir, sérfræðingur hjá embætti forseta Íslands og fyrrverandi upplýsingafulltrúi NATO, gerði hlutina skiljanlega fyrir marga á Twitter þegar hún setti nýja leikmenn á spilaborðið þar sem A. Tónlistarmaðurinn Kanye West er Rússland, B. Kim Kardashian, sem er að skilja við Kanye, er Úkraína og C. nýi kærastinn hennar, Pete Davidson, er Vestrið/NATO.
Greiningin er svo eftirfarandi:
„B hefur fjarlægst A og vill binda trúss sitt C. En A viðurkennir ekki sjálfsákvörðunarrétt B til að velja eigin sambönd. A telur sig eiga B, beitir B passive aggressive kúgunum og hótar C stríði.“
A. Kanye er Rússland
B. Kim Kardashian er Úkraína
C. Pete Davidson er Vestrið/NATOB hefur fjarlægst A og vill binda trúss sitt C. En A viðurkennir ekki sjálfsákvörðunarrétt B til að velja eigin sambönd. A telur sig eiga B, beitir B passive aggressive kúgunum og hótar C stríði.
— Una Sighvatsdóttir (@unasighvats) February 17, 2022
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman til neyðarfundar í gærkvöldi í New York. Boðað var til fundarins í kjölfar þess að Rússland viðurkenndi sjálfstæði tveggja héraða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, rétt við landamæri Rússlands, og eftir að Pútín fyrirskipaði að rússneski herinn myndi ráðast yfir landamærin inn í Úkraínu. Fyirhugaðar aðgerðir Rússa voru harðlega fordæmdar en svo vill þó til að Rússar eru í forsæti í ráðinu sem stendur.
Þau héröð sem Pútín viðurkenndi sem sjálfstæð voru Dónetsk og Lúhansk í austurhluta Úkraínu en aðskilnaðarsinnar þar eru hliðhollir Rússum og fögnuðu margir íbúar þessari ákvörðun Pútíns. Varnamálaráðherra Rússa hefur gefið út að ráðast þurfi inn í héröðin til að vernda íbúa þessara „alþýðulýðvelda“ og stuðla þannig að friði. Leiðtogar Vesturlanda segja hins vegar að það sé einfaldlega innrás í sjálfstætt ríki Úkraínu að senda rússneska hermenn inn í héröðin og brot á alþjóðalögum og landhelgi Úkraínu.
Sendiherra Úkraínu bendi á það á neyðarfundi öryggisráðsins að atburðum nú svipar að nokkru leyti til þess þegar Pútín studdi sjálfstæði tveggja héraða í Georgíu árið 2008 eftir að rússneski herinn hafði þar gert innrás, í Suður-Ossetíu og Abkasíu.
Þýskaland er meðal þeirra sem hafa tekið harða afstöðu í málinu. Kanslari Þýskalands greindi frá því í dag að ákveðið hafi verið að stöðva Nord Stream 2 verkefnið, risavaxna gasleiðslu sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands um Eystrasalt. Uppbygging leiðslunnar hefur staðið yfir í fimm ár en hún hafði enn ekki verið tekin í notkun þar sem hún var ekki í samræmi við þýsk lög. Gasleiðslunni var ætlað að tvöfalda útflutning á gasi frá Rússlandi til Þýskalands.
🇩🇪🇷🇺⚡️BREAKING: Certification of Nord Stream 2 will be suspended.
German Chancellor Olaf Scholz, according to media reports, gave a corresponding order to the country’s Ministry of Economy. pic.twitter.com/MdFpstYa6q
— Ukraine War Report (@UkrWarReport) February 22, 2022
Mánuðum saman hefur verið talað um mögulega innrás Rússa í Úkraínu og mánuðum saman hefur Pútín neitað fyrir einmitt þær fyrirætlanir.
Enn lengur hafa Rússar sett sig upp á móti því að Úkraína færi sig nær stofnunum í Evrópu á borð við NATO og Evrópusambandið. Pútín hefur haldið því fram að Úkraína sé aðeins leikbrúða vesturríkjanna og hafi aldrei einu sinni verið alvöru ríki.
Rússland er stærsta land Evrópu en þar á eftir kemur Úkraína. Tengsl þeirra eiga sér sögulegar rætur en bæði tilheyrðu þau Sovétríkjunum sem leystust upp árið 1991. Menning þeirra er einnig tengd og rússneska töluð víða í Úkraínu. Rof varð hins vegar á þessum tengslum þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 og hernámu Krímskagann sem hafði verið hluti af Úkraínu frá 1954. Átök hafa geisað síðan og kostað þúsundir mannslífa.
Með því að viðurkenna sjálfstæði Dónetsk og Lúhansk lítur Pútín svo á að hann geti farið með herlið sitt, sem hingað til hefur verið við landamærin, inn í héröðin og þar með inn í Úkraínu.
🇷🇺🇺🇦⚡️Footage of tank and artillery movement in rebel-held Luhansk, LPR pic.twitter.com/8bEjMEQUbQ
— Ukraine War Report (@UkrWarReport) February 22, 2022
Ekki er ljóst hversu langt Pútín mun ganga í að rjúfa friðinn og ekki er útlit fyrir neinar samningaleiðir. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann telji höfuðborg Úkraínu, Kíev, í hættu en þar búa 2,8 milljón saklausra borgara.
Reikna má með því að ríki NATO og Evrópusambandsins tilkynni um refsiaðgerðir gegn Rússum vegna stöðunnar en íslenskir ráðherrar hafa sagt að Ísland muni taka þátt í slíkum aðgerðum.