Megavikan hjá Domino’s hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein stærsta tilboðsvika skyndibita hér á landi. Pizzuunnendur landsins bíða margir eftir Megaviku með mikilli eftirvæntingu enda fást þá matseðilspizzur Domino’s á mun betra verði en venjulega.
Megavikan þessa vikuna er þó nokkuð öðruvísi en hún hefur verið áður, stór breyting hefur orðið þar sem nú er einungis hægt að panta tilboðið í appinu eða á netinu.
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s hér á landi, útskýrir í samtali við DV hvers vegna þessi breyting var gerð. „Domino‘s hefur síðastliðinn 10 ár verið að færa móttöku pantana yfir á netið en sú breyting hófst með tilkomu Domino‘s appsins og uppfærðar vefsíðu árið 2012,“ segir Magnús.
„Síðan þá hefur notkun stóraukist og í dag eru rétt tæplega 90% allra pantana hjá félaginu í gegnum stafrænar leiðir. Hluti af þessari umbreytingu er að færa okkar hagstæðustu tilboð yfir að vera eingöngu í boði á netinu. Sem dæmi má nefna mánaðarlegt tríó tilboð okkar sem hefur verið bundið við netið frá upphafi. Megavikan á netið er liður í þeim breytingum.“
Magnús á ekki von á því að þessi breyting hafi mikil áhrif á viðskiptin. „Ég á ekki von á því þó þetta séu viðbrigði fyrir ákveðinn hluta viðskiptavina,“ segir hann.
„Samkvæmt könnun sem Gallup hefur framkvæmt síðustu ár eru viðskiptavinir sem panta á vef eða með appi mun ánægðari en aðrir. Þar geta viðskiptavinir vistað sínar uppáhalds pantanir, afgreiðslustaði og heimilisföng og valið úr fjölda greiðslumáta – allt með það að markmiði að gera ferlið einfalt og fljótlegt. Á dominos.is má einnig kaupa stafræn gjafabréf og nálgast innihalds- og næringarupplýsingar.“
Þá bendir Magnús á að vefsíðan og appið hjá Domino’s hafa hlotið fjölda viðurkenninga síðustu ár fyrir góða upplifun viðskiptavina. „Sem dæmi um það má nefna að appið vann verðlaun sem app ársins 2021 á Íslensku vefverðlaununum og vefurinn valinn vefverslun ársins 2020.“
Áhyggjufullir og tæknihræddir neytendur Domino’s þurfa þó ekki að örvænta fyrirtækið mun hjálpa þeim sem ná ekki að panta á netinu eða í appinu. „Samhliða því að færa móttöku pantana yfir á netið í auknu mæli höfum við aukið stafræna þjónustu við viðskiptavini. Hægt er að fá aðstoð í netspjalli á Dominos.is en einnig er ávallt opið fyrir skilaboð, bæði í gegnum samfélagsmiðla og tölvupóst,“segir Magnús.
„Viðskiptavinir geta að sjálfsögðu áfram hringt í eitt þekktasta símanúmer landsins, 58-12345, til dæmis ef þeim vantar upplýsingar eða hafa athugasemdir varðandi vöru eða þjónustu. Þeir sem eiga í vandræðum með að senda inn pöntun eru hvattir til þess að hafa samband og við aðstoðum eftir fremsta megni. “