fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Foreldrar stúlku sem lenti í átökum við kennara í Dalvíkurskóla stíga fram – „Dóttir okkar stimpluð sem forhertur vandræðagemlingur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 20. febrúar 2022 12:00

Magnea Rún Magnúsdóttir og Kristján Már Þorsteinsson hafa ýmislegt að athuga við framgang og umfjöllun um mál dóttur þeirra sem lenti í átökum við kennara við Dalvíkurskóla.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Foreldrar stúlku sem lenti í átökum við kennara í Dalvíkurskóla í vor hafa stigið fram og lýst atvikinu frá sjónarhóli dóttur sinnar auk þess að gera alvarlegar athugasemdir við umræðu á samfélagsmiðlum í kjölfar frétta um málið.

Í vikunni var kveðinn upp dómur í héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem kennara við Dalvíkurskóla voru dæmdar 8 milljónir króna í skaðabætur vegna uppsagnar. Uppsögnin var tilkomin vegna atviks sem átti sér stað á skólalóðinni síðastliðið vor en kennarinn sló nemanda utanundir, 13 ára stúlku, sem áður hafði slegið hann. Kennarinn sagðist hafa brugðist við í sjálfsvörn.

Dóm héraðsdóms í málinu má lesa hér en einnig greindi vefsíða Kennarasambands Íslands frá málinu og segir þar:

„Málavextir eru þeir,  kennarinn var með íþróttatíma utan húss, þegar stúlka kemur inn á svæðið sem á þangað ekkert erindi. Þetta var undir lok vorannar í fyrra. Kennarinn kvað stúlkuna hafa verið ókurteisa og neitað að fara að fyrirmælum um að yfirgefa svæðið. Þá settist kennarinn niður á hækjur sér og tók um úlnlið stúlkunnar, horfði í augu hennar og bað hana um að færa sig því hún væri að trufla kennslu. Stúlkan svaraði með orðunum: ekki fokking snerta mig, og sveiflaði síðan hendinni hraustlega og gaf kennaranum kröftugan löðrung. Í dómsorðinu er haft eftir kennaranum að henni hafi brugðið við og hún hafi ósjálfrátt farið í sjálfsvörn með því að gefa nemandanum léttan kinnhest. Kennarinn kveðst „hafa upplifað ógn af nemandanum ásamt því sem hún upplifði nemandann í ham og gerði ráð fyrir fleiri höggum,“ segir orðrétt í dómnum.“

Vita ekki hvað hún hefur þurft að ganga í gegnum

„Undanfarna daga hefur umræðan verið hávær um afskipti kennara og barns í okkar litla samfélagi. Í kjölfar umræðunnar finnum við okkur knúin til að stinga niður penna og deila með ykkur tilfinningum og hugsunum okkar, foreldra nemandans sem hefur verið til umræðu í þessu erfiða máli. Það er okkur nefnilega ljóst að í umræðunni hefur rödd okkar og 14 ára dóttur okkar ekki fengið að heyrast,“ segir móðir stúlkunnar, Magnea Rún Magnúsdóttir, í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni.

Tekið skal fram að skrifin birta foreldrarnir með leyfi dóttur sinnar. Segja þau hana hafa glímt við þunglyndi, kvíða og sjálfskaðahugsanir. Magnea lætur þess samt getið í samtali við DV að dóttir hennar sé á mun betri stað í dag enda hafi hún fengið mjög mikinn stuðning:

„Það er erfitt að lýsa verkjunum í hjartanu sem fylgdu því þegar við foreldrarnir þurftum ítrekað að gera að sárum 13 ára dóttur okkar. Þegar hún faldi hnífa um allt herbergi sitt til þess að geta skorið sig í hendurnar þegar vanlíðanin var sem mest. Það er erfitt að útskýra hvað fer í gegnum höfuðið á foreldrum í þeirri stöðu. Það er erfitt að skilja hvernig henni líður og loks erfitt að skilja hvernig þetta allt hefur haft áhrif á okkar fjölskyldulíf.“

Þeim sárnar umræðan á samfélagsmiðlum í kjölfar dómsins þar sem fólk er ekkert þekkir til málsins fellir sleggjudóma. Dóttir hennar sé stimpluð sem óargadýr og forhertur vandræðaunglingur. Ekkert komi fram um erfiðleikana sem búi að bak atvikinu. Barn hennar sé nú varnarlaust gagnvart þessari vægðarlausu umræðu.

Segja kennarasambandið hafa rofið trúnað

Faðir stúlkunnar, Kristján Már Þorsteinsson, undrast framgöngu Kennarasambands Íslands í málinu. Sambandið birti frétt um dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í málinu á vefsíðu sinni áður en dómurinn sjálfur birtist á vef dómstólanna. Í frétt kennarasambandsins kom fram hvar atvikið hefði átt sér stað, þ.e. í Dalvíkurbyggð, og þar með var persónuvernd gegn stúlkunni og foreldrum hennar rofin. Dómurinn er hins vegar ópersónugreinanlegur og þar kemur ekki fram við hvaða skóla atburðurinn átti sér stað.

„Í þessu litla samfélagi sem Dalvík er þá vissu allir hvað hafði gengið á milli dóttur okkar og þessa kennara. Í dómnum er auk þess bara einhliða frásögn frá kennaranum og dóttir okkar í raun og veru bara úthúðuð sem vandamálabarn. Það sem kennarasambandið gerir þarna er í raun bara að benda á dóttur okkur og segja: Þetta er hún,“ segir Kristján í samtali við DV.

Í þessu máli virðist kennarasambandið eingöngu hugsa um hag og orðstír kennarans en ekki barnsins. Dómurinn og frétt kennarasambandsins miðlar mjög einhliða frásögn kennarans af málavöxtu enda voru hvorki stúlkan né foreldrar hennar kölluð til vitnis fyrir dómi.

Kennarinn fór ófögrum orðum um barnið

Í pistlinum á Facebook-síðu móðurinnar segir að foreldrarnir geri í sjálfu sér ekki athugasemd við dóminn í málinu. Eflaust hafi ekki verið rétt farið að við uppsögn kennarans og hún ólögleg. Í dómnum sé hins vegar ekki krufið hvað gekk á í samskiptum dóttur hennar og kennarans. Ekki sé með honum verið að réttlæta að fullorðinn maður slái barn. Töluverðar rangfærslur séu hins vegar í gangi um atburðarásina, jafnvel líka í texta dómsins. Framferði kennarans hafi einnig ekki alltaf verið til fyrirmyndar:

„Eitt er það sem stuðar marga og það er að í dómnum er talað um “flekklausan feril” umrædds kennara og velta margir skilgreiningu orðanna fyrir sér. Því foreldrar hafa nefnilega haft samband við okkur með sögur af umræddum kennara og hvernig hann kom fram við þeirra barn. Sum þeirra mála ná mörg ár aftur í tímann. Má þar nefna: hunsun, einelti, ljót orð í garð nemenda og líkamlegt ofbeldi. Sumir þessa foreldra tilkynntu til skólans en aðrir því miður ekki. Því veltum við foreldrarnir fyrir okkur, hvernig skilgreinum við flekklausan feril?

Hvergi í dómnum kom fram að dóttir okkar, sem sat á grasinu á skólatíma í kennslustund hjá kennaranum, var með nýlega skurði á úlnliðnum og framhandlegg. Hún ítrekað bað kennarann um að sleppa hendinni á sér áður en hún brást við með þeim hætti sem við vitum öll hver var, hún slær til kennarans. Okkur þykir virkilega miður að hún hafi fundið sig knúna til að þurfa að bregða til þessa ráðs. Við höfum reynt að kenna börnunum okkar að það eigi aldrei að beita ofbeldi og hvergi ætlum við að halda því fram að hún hafi mátt slá til kennara síns. Við vitum vel að starf kennara er óeigingjarnt, slítandi og það getur reynt á þolrifin þegar nemendur hlýða ekki fyrirmælum. Því hvarflar ekki að okkur að réttlæta gjörðir dóttur okkar en við viljum þó hvetja alla til að hafa í huga að – aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

Sjá einnig: Kennarinn sagður umdeildur og því mótmælt að hann hafi flekklausan feril

Einnig segir að kennarinn hafi farið ófögum orðum um dóttur hennar eftir atvikið. Hann hafi haldið umræðatíma um málið með næstu tveimur árgöngum fyrir ofan dótturina og haldið þar uppi einhliða vörnum. Segja þau að hann þar hafa gert sig sekan um alvarlegan trúnaðarbrest, þar sem hann ræðir um persónuleg mál dóttur þeirra við aðra nemendur án vitneskju annarra kennara eða skólastjóra.

 

Tvær fjölskyldur í sárum

 Þá segir í pistlinum að málið sé erfitt og viðkvæmt í litlu samfélagi Dalvíkur. Þau eru hins vegar þakklát fyrir stuðning kennara og fagaðila:

„Tvær fjölskyldur eru í sárum og smæð samfélagsins okkar gerir kannski stöðuna enn verri. Við fjölskyldan erum þakklát þeim kennurum og fagaðilum sem hafa sýnt okkur einlægan stuðning og hlýju. Í Dalvíkurskóla starfa ófáir fagmenn sem bera hag nemenda skólans fyrir brjósti og þeim öllum kunnum við bestu þakkir. Starf kennara er eitt af grunnstoðum samfélagsins og án þeirra væri samfélagið okkar allt annað. Við sem samfélag þurfum að hlúa að kennarastéttinni og tryggja það að hún fái þá virðingu sem henni ber. Baklandið má víða bæta og því er nauðsynlegt að hafa getu og þroska til að rýna til gagns af einlægni. Þar verður hver og einn að horfa sér nærri. Foreldrar, unglingar, kennarar, skólastjórnendur og ráðamenn.“

 Þau segja að dóttir þeirra sitji í sárum og sjái eftir hegðun sinni. Aldrei hafi verið ætlun foreldra hennar að standa í orðaskaki við kennara dóttur þeirra né stjórnendur í Dalvíkurbyggð. Þau hafi hins vegar séð sig knúin til að kæra atvikið, einni viku eftir atburðinn, þegar þau upplifðu máttleysi og aðgerðaleysi kerfisins. Móðirin segir í samtali við DV að þau hafi kært einfaldlega til að rjúfa þögn og afskiptaleysi í málinu.  Þá benda þau á að þau hafi aldrei upplifað eftirsjá af hálfu kennarans né fengið frá honum afsökunarbeiðni.

Til þeirra sem réttlætt hafa framgöngu kennarans í samfélagsmiðlaumræðunni segir móðirin:

„Barnið okkar sat á grasbala og fullorðinn aðili stendur yfir henni, ógnandi, heldur fast um sár eftir sjálfsskaða og neitar að sleppa henni, þrátt fyrir að barnið okkar hafi beðið hana um það ítrekað. Kennarinn sagði orðrétt: “Ég snerti þig ef ég vil það”. Barnið okkar upplifði þetta sem ógn og í bræði verður henni á og hún missir sig. Það sá á barninu okkar eftir þennan kinnhest og má því alveg spyrja sig um hversu léttur hann hafi verið.“

 Pistilinn í heild má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg