Stefán Einarsson, doktor í áhættuverkfræði, vann fyrir 30 árum hjá Vinnueftirliti ríkisins en missti starfið eftir skýslu sem hann gerði þegar hann var fenginn til að rannsaka eldsvoða í Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi árið 1990.
Stefán gerði skýrsluna og varaði í henni við mikilli hættu sem var yfirvofandi í verksmiðjunni vegna vetni. „Meðferð vetnis var varasöm í allri verksmiðjunni eins og kom í ljós síðar. Það þurfti að gera úrbætur á vetnis- og ammoníakshúsunum,“ segir Stefán í samtali við Fréttablaðið sem fjallaði um málið.
Í apríl hafði hann tekið undir að vetnismálin í verksmiðjunni yrðu skoðuð en í maí, þegar skýrslan var tilbúin, var staðan allt önnur. „Í maí vildi hann ljúka ráðningarsamningnum og þvingaði mig til að skrifa undir starfslok,“ segir Stefán í samtali við Fréttablaðið. „Ég gerði skýrslu sem er metin í topp og átti ekki að missa vinnuna fyrir það.“
Ljóst er að Stefán hafði rétt fyrir sér með hættuna sem stafaði af vetninu. 11 árum eftir að hann missti vinnuna varð mikil sprenging af völdum vetnis í áburðarverksmiðjunni.
Stefán hefur reynt að leita réttar síns vegna uppsagnarinnar en það hefur ekki gengið svo vel. Þegar hann kærði uppsögnina til félagsmálaráðuneytisins og fór með málið til umboðsmanns Alþingis vildi ríkissaksóknari ekki einu sinni skoða gögn málsins. Stefán segir að umrædd gögn hafi verið skoðuð af öðrum verkfræðingum og staðist allar kröfur.
Þrátt fyrir mótlætið sem hefur mætt Stefáni þá er hann ekki hættur að leita réttar síns. „Ég hætti ekki fyrr en ég fæ réttlæti,“ segir hann.