Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, fer hörðum orðum um íslenskt samfélag í pistli sínum sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hann gagnrýnir harðlega hvernig „vildarvinir valdaelítunar“ hagnast um milljarða á þjóðarauðlindum á meðan fólkið í landinu lifir við skort.
„Á Íslandi er vildarvinum valdaelítu gefinn aðgangur að dýrmætum þjóðarauðlindum til ráðstöfunar að eigin vild. Örfáir kvótaþegar hagnast um tugi eða jafnvel hundruð milljarða á ári hverju. Við sjáum aðeins lítinn hluta þess hagnaðar vegna þess að stærstu útgerðirnar eru fjölþjóðleg fyrirtæki sem láta hagnaðinn koma fram þar sem hentar þeim,“ segir Ólafur í pistlinum.
Ólafur segir að íslenska stórútgerðin sé í í raun ekki frábrugðin Google, Amazon, Apple og öðrum fjölþjóðlegum fyrirtækjasamstæðum sem stýra hagnaði af starfsemi sinni í skattaskjól á aflandseyjum. „Þetta er siðlaust en löglegt vegna þess að strengjabrúður peningavaldsins á þingi og í ríkisstjórn passa upp á sína og þiggja að launum brauðmola sem hrökkva af veisluborðum hins raunverulega valds, og stöku klapp á kollinn,“ segir hann.
„Stórfyrirtæki hagnast og borga vart skatta á meðan fólkið í landinu líður skort. Þetta er staðreynd í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem þriðjungur þjóðarinnar er undir fátæktarmörkum. Þetta er staðreynd á eyjunni bláu sem er eitt ríkasta land í heimi.“
Ólafur bendir þá á að kvótaþegar Íslands hafi á undanförnum árum keypt upp stóran hluta af íslensku atvinnu- og viðskiptalífi fyrir hagnaðinn af kvótanum. „Á sama tíma hefur þrengt svo að stórum hópum fólks að það veigrar sér við að leita sér læknisaðstoðar vegna kostnaðar.“
Því næst kemur Ólafur með stóru orðin. „Ísland er í raun fanganýlenda,“ segir hann. „Í gjöfulu landi hefur ungt fólk ekki efni á að koma sér þaki yfir höfuðið, gamalt fólk hefur ekki efni á að leysa út lyfin sín.“
Hann spyr hvernig svona megi vera í vestrænu „lýðræðisríki“ og svarar þeirri spurningu svo sjálfur. „Við erum haldin Stokkhólmsheilkenninu sem felst í því að gíslar öðlast samúð og meðlíðan með föngurum sínum,“ segir hann.
„Þess vegna kjósum við sífellt yfir okkur sömu stjórnmálamennina og flokkana, glaðværa gíslatökumenn sem halda okkur í gíslingu fyrir kvótaþega þessa lands með bros á vör. Kannski eigum við ekki betra skilið.“