fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Fréttir

HSS skiptir Suðurnesjabúum í fylkingar – „Djöfulsins kjaftæði“ – „Heyrist alltaf hæst í þeim sem eru óánægðir“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 19. febrúar 2022 13:39

Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sendi í gær frá sér yfirlýsingu vegna „ómálefnalegrar“ umfjöllunar um stofnunina en stjórnin segir umfjöllunina stefna starfsemi stofnunarinnar í hættu.

Í yfirlýsingunni segir framkvæmdastjórnin að búið sé að vinna markvisst eftir nýrri stefnu síðan árið 2020 og að sú vinna sé farin að skila árangri. „Breytingarnar miða allar að því að bæta getu stofnunarinnar til að veita þjónustu í þágu samfélagsins. Tekist hefur að byggja upp samheldið teymi fagfólks og stjórnenda við erfiðar aðstæður svo sem undirmönnun og aðstöðuleysi,“ segir í yfirlýsingunni.

„Starfsfólk HSS tekst á við þessi verkefni vitandi að stofnunin hefur um áratugi starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu sem er ein orsök helsta vandans sem við glímum við, mönnunarvandans. Linni þessum árásum ekki verður vandinn sem við reynum samhent að leysa einfaldlega enn verri.“

Segja að umræðan verði að vera málefnaleg

Framkvæmdastjórnin segir að gagnrýni á þjónustu opinberra stofnanna sé nauðsynleg en að gagnrýnin sem HSS hefur fengið sé ómálefnaleg. „Við, eins og aðrir víkjum okkur ekki undan henni. Hún verður hinsvegar að vera málefnaleg og fara í réttan farveg. Mönnunarvandi er vel þekktur í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á landsbyggðinni. Ofan á hann bætist ómálefnaleg gagnrýni á opinberum vettvangi sem fær starfsfólk til að hugleiða þakklátari störf,“ segir stjórnin.

„Þetta leiðir til þess að erfiðlega gengur að manna stöður í framlínu sem veldur því að ekki er hægt að veita eins mikla þjónustu og við gætum ef við værum fullmönnuð.“

Þá segir stjórnin að stofnunin sé „föst í vítahring neikvæðrar umræðu“ og að ekki hafi tekist að rjúfa umræðuna í áratugi. „Í stað þess að vinna með stofnuninni hafa sumir valið að fara þá leið að gagnrýna starfsfólk hennar ómálefnalega og vinna þannig gagngert gegn uppbyggingu,“ segir stjórnin.

„Sú orðræða er starfsfólki afar erfið og hefur bein áhrif á það hversu aðlaðandi HSS er sem vinnustaður, bæði fyrir núverandi og framtíðar starfsfólk. Afleiðingarnar hafa verið þær að við getum ekki veitt eins mikla þjónustu og samfélagið þarf. “

Að lokum segir framkvæmdastjórnin að nú standi tvær leiðir til boða fyrir samfélagið á Suðurnesjum. „Sú fyrri er sú sem haldið hefur verið á lofti í áratugi, leið ómálefnalegrar gagnrýni. Slíkt niðurrif getur aðeins spillt fyrir því að okkur sé kleift að rækja hlutverk okkar eins vel og hægt er. Seinni leiðin er að fara að fordæmi starfsfólks, sem í dag vinnur samhent að því að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.“

Þá botnar stjórnin pistilinn með því að hvetja alla til þess að leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á starfsfólki stofnunarinnar og hjálpa þannig að efla heilbrigðisþjónustuna á svæðinu.

„Það heyrist alltaf hæst í þeim sem eru óánægðir“

Þessi yfirlýsing hefur farið misvel í íbúa á Suðurnesjum en hún olli miklu fjaðrafoki í athugasemdakerfinu á Facebook. Þá má segja að íbúar Suðurnesja skiptist í fylkingar.

Annar hópurinn er sammála yfirlýsingunni og skilur ekki gagnrýnina. Í fjölmörgum athugasemdum er stofnunin dásömuð og henni hrósað fyrir góða þjónustu. „Hef alltaf fengið mjög góða þjónustu og starfsfólkið alltaf staðið sig vel í þau skipti sem ég hef þurft að leita til þeirra. Er á þeirri skoðun og veit að langstærsti hluti fólks hér á svæðinu er ánægt með sjúkrahús og heilsugæsluna hér í bæ. Það heyrist alltaf hæst í þeim sem eru óánægðir en hinn þögli meirihluti tjáir sig ekki,“ segir til að mynda einn íbúi bæjarins í athugasemd og taka margir undir með honum.

Ein kona þakkar stjórninni sérstaklega fyrir yfirlýsinguna og segir að hún hugsi nákvæmlega það sama þegar hún sér slæmar umfjallanir um stofnunina. „Ég hef því miður þurft að sækja læknisþjónustu nokkuð oft undanfarin ár en er virkilega þakklát fyrir frábæra þjónustu sem ég og mín fjölskylda höfum fengið. Á HSS eru margir frábærir læknar, hjúkrunarfræðingar, frábær fæðingardeild og mæðravernd, heilsueflandi móttaka er flott framtak og ég gæti lengi áfram upp talið. Það sem þessi stofnun þarf er meira fjármagn frá ríkinu til þess að halda áfram að byggja upp betri þjónustu, þetta er það mikill fjöldi fólks á þessu svæði að við ættum að hafa allt til alls hér og vera sem minnst háð Landspítalanum,“ segir hún.

Hryllingssögur af „sláturhúsinu“

Hinn hópurinn furðar sig á yfirlýsingunni og deila margir hryllingssögum af stofnuninni í athugasemdunum, sumir uppnefna hana jafnvel „sláturhús Suðurnesja“.

„Pabbi væri líklega á lífi í dag ef sláturhúsið hefði sinnt honum almennilega, það var ekki fyrr en hann fór í bæinn að krabbameinið greindist strax þar en því miður var það orðið of seint eftir fjölmargar heimsóknir á HSS,“ segir til dæmis maður nokkur í athugasemdunum. Annar segir svo að yfirlýsingin sé „djöfulsins kjaftæði“.

Þá eru margir sem gagnrýna stjórnina harðlega fyrir að segja að umfjöllunin sé ómálefnaleg. „Kallast það „ómálefnaleg umræða“ þegar fólk lýsir endurtekinni slæmri reynslu sinni af þjónustunni og „rétti farvegurinn“ skilar engu?? Er ekki nær að girða sig í brók, vanda sig betur og leggja sig fram um að koma í veg fyrir uppákomur sem, því miður, alltof margir hafa frá að segja??“ segir til dæmis einn ósáttur íbúi og fleiri íbúar taka í svipaða strengi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tveir Hollendingar nappaðir í Leifsstöð

Tveir Hollendingar nappaðir í Leifsstöð
Fréttir
Í gær

Sósíalistar og VG vilja komast í meirihluta í Reykjavík

Sósíalistar og VG vilja komast í meirihluta í Reykjavík