Rétt fyrir klukkan 14:00 barst lögreglu og sjúkraflutningamönnum aðstoðarbeiðni vegna 10 ára drengs sem grafist hafði í snjóflóði í Hamrinum við Hveragerði. Snjógengja hafði fallið niður hlíð Hamarsins en þar var drengurinn ásamt öðrum börnum að leik.
Lögreglan á Suðurlandi segir frá þessu í færslu sem birt var á Facebook. Í færslunni kemur fram að 14 ára bróðir drengsins sem lenti undir snjónum hafi sýnt mikið snarræði þegar snjórinn féll niður. Hann staðsetti bróður sinn í flóðinu og gróf sjóinn frá andliti hans. Því næst hringdi hann eftir aðstoð í 112.
„Hjálparsveit Skáta, Hveragerði, var kölluð til og sinnti björgun drengsins og kom honum í sjúkrabifreið,“ segir lögreglan í færslunni. Að sögn foreldra drengsins mun líðan hans vera eftir atvikum góð.
Í ljósi þessa vill lögregla og Slysavarnarfélagið Landsbjörg beina þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð við Hamarinn í Hveragerði eða við hlíðar hans. Veðuraðstæður hafa skapað fjölda snjóhengja sem hætta er á að geti fallið.