fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Hversu langt mega blaðamenn ganga? – „Hann er að vinna hjá útgerðarfyrirtæki sem er ekki beint vinsælt hjá Íslendingum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 18. febrúar 2022 14:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau tíðindi að Lögreglan á Norðurlandi eystra hafi boðað fjóra blaðamenn í yfirheyrslu og sett þau í stöðu sakbornings vegna rannsóknar á þjófnaði á síma Páls Steingrímssonar Samherjaskipstjóra og afritun á gögnum úr símanum hafa vakið mikla athygli, sem og óhug þeirra sem láta sér annt um fjölmiðlafrelsi.

Tveir blaðamenn sem í hlut eiga hafa lýst því yfir að þeir séu grunaðir um að hafa skrifað fréttir og hafa lýst furðu sinni á framgöngu lögreglunnar.

Lög um mörk blaðamanna við öflun upplýsinga eru ekki skýr en dómafordæmi sem og dæmi um athafnaleysi lögreglu og ákæruvalds í tilvikum þar sem blaðamenn hafa skrifað fréttir upp úr ólöglega fengnum gögnum ættu að taka af öll tvímæli um það að blaðamönnum er heimilt að skrifa fréttir upp úr illa fengnum gögnum ef efni þeirra varðar almannahag.

Í fjölmiðlalögum er jafnframt kveðið skýrt á um verndum heimildarmanna, sem í þessu tilviki gæti verið sá aðili sem kann að hafa afhent blaðamönnum gögn sem fengin voru með ólöglegum hætti. Í 25. grein laganna segir:

„Starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd er óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum.“

Blaðamennirnir fjórir sem boðaðir hafa verið til lögregluyfirheyrslu eru grunuð um brot á 228. grein almennra hegningarlaga, sem varðar brot á friðhelgi einkalífs:

„Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.“

En athyglisvert er að næsta grein almennra hegningarlaga kann að réttlæta það sem blaðamennirnir eru hugsanlega sakaðir um. Í 229. grein almennra hegningarlaga segir:

„Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
 Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.“

Með öðrum orðum: Síðari málsgreinina mætti hæglega túlka þannig að það sé löglegt að sækja sér gögn í síma ef efni gagnanna á erindi til almennings og er fréttnæmt.

Hvar liggur línan?

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV veiktist Páll Steingrímsson lífshættulega rétt áður en síma hans var stolið af honum. Hann var fluttur nær dauða en lífi með sjúkraflugi frá Akureyri til Reykjavíkur þar sem hann lá í öndunarvél á Landspítalanum. Á meðan hann var í því ástandi er talið að síma hans hafi verið stolið og honum síðan skilað til hans aftur. Manneskja nákomin Páli er grunuð um símastuldinn. Hún er jafnframt grunuð um að hafa byrlað Páli hættulegum lyfjum eða lyfjum í hættulegu magni. Samkvæmt sömu heimildum eru fréttir sem Kjarninn og Stundin birtu síðastliðið vor og sýndu um margt hneykslanlegt skilaboðaspjall Páls við tvær aðrar manneskjur sem tengjast Samherja, og voru vangaveltur um að klekkja á fólki sem er andsnúið Samherja, byggðar á gögnum úr síma Páls.

Ómar R Valdimarsson, lögfræðingur og fyrrverandi blaðamaður, hefur velt fyrir sér mörkum hins löglega í heimildaöflun blaðamanna. Hann segir í samtali við DV:

„Hversu langt mega blaðamenn ganga án þess að brjóta lögin? Það finnst mér áhugaverð spurning og ég er alls ekki að segja að það hafi verið gert í þessu tilviki. En einhvers staðar liggur línan og á einhverjum tímapunkti ertu ekki lengur að taka á móti gögnum heldur ertu þátttakandi í það afla þeirra og þá geturðu á einhverjum tímapunkti verið kominn yfir mörkin varðandi það hvað blaðamenn mega og mega ekki gera,“ segir Ómar.

Hann telur að ef sá sem stal símanum hefur afritað gögnin og afhent þeim blaðamönnunum þá hafi blaðamennirnir án nokkurs vafa ekki gert neitt ólöglegt. „Símaþjófurinn gæti þá fallið út fyrir mörk laganna nema hann yrði skilgreindur sem uppljóstrari,“ segir Ómar.

En vel getur verið að blaðamennirnir hafi verið innan marka laganna þó að þeir hafi sjálfir afritað viðkomandi gögn úr símanum. Önnur málsgrein 229. greinar almennra hegningarlaga segir að ákvæði um brot á friðhelgi eigi ekki við ef háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.

Ómar segir að þarna skipti máli hvort blaðamennirnir hafi farið beint inn í tiltekin gögn sem þeim var bent á og aðeins skoðað og afritað það sem fréttir voru unnar upp úr eða hvort þeir hafi bara skoðað allt og ekkert í símanum í leit að einhverju.

Síminn geymir líf okkar og við erum öll breysk

„En ef þau hafa farið inn í símann án þess að vita hvar þar var að finna og rótað í einkagögnum þar til þau rákust á þessi samskipti sem eru efni fréttanna, þá eru þau utan við mörkin, birtingin á upplýsingunum kann eftir sem áður að vera innan marka laganna en varla skoðunin á símanum,“ segir Ómar.

Hann bendir á að allir símar geymi viðkvæmar persónuupplýsingar sem engum komi við:

„Það er alveg sama í hvaða síma þú ferð, það eru hlutir þarna inni sem eigandinn vill ekki að komi fyrir almenningssjónir, samskipti við eiginkonu og aðra nána aðila, hlutir sem maður vill hafa fyrir sjálfan sig. Það kynni ekki góðri lukku að stýra ef blaðamenn væru farnir að skoða persónuleg gögn allra einstaklinga án þess að það væri grunur um nokkurn skapaðan hlut. Þú munt alltaf finna eitthvað því við erum öll breyskar manneskjur og síminn heldur utan um líf þitt eins og þetta er í dag.“

Hann segir að höfuðmáli skipti hvort blaðamennirnir fóru inn í símann til að skoða eitthvað tiltekið eða hvað sem er. „Það gæti verið innan marka laganna en um leið og þetta er orðin einhver allsherjar skoðun á öllum gögnum og samskiptaforritum í þeirra von að finna eitthvað, af því hann er að vinna hjá útgerðarfyrirtæki sem er ekki beint vinsælt hjá Íslendingum, þá held ég að menn séu farnir að teygja línuna ansi langt,“ segir Ómar.

Rétt er að taka fram að DV hefur engar skjalfestar upplýsingar um að viðkomandi blaðamenn hafi fengið síma Páls í hendur, hvað þá að þeir hafi afritað gögn úr honum. Ennfremur er rétt að ítreka að þau hafa ekki verið ákærð fyrir nokkurn skapaðan hlut. En fyrir liggur að þau hafa verið boðuð í lögregluyfirheyrslu og eru grunuð um brot á lögum um friðhelgi einkalífs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki