Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli og á Ráðhústorginu á Akureyri á morgun klukkan 14:00 vegna máls fjölmiðlamannanna fjögurra sem hafa fengið stöðu sakborninga í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á meintu broti gegn friðhelgi einkalífs. Að baki mótmælunum standa ungliðahreyfingar Sósíalista, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri Grænna og Viðreisnar.
Mikið hefur verið fjallað um málið í vikunni en þau Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður Stundarinnar, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Kjarnans og Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans hafa verið boðuð í skýrslutöku vegna rannsókn á meintu broti gegn friðhelgi einkalífs. Málið á rætur að rekja til umfjöllunar fjórmenninganna um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja, en fréttirnar voru unnar upp úr samskiptagögnum meðlima þessarar skæruliðadeildar og vörpuðu ljósi á hvernig hópurinn njósnaði um blaðamenn og skipulagði árásir á þá.
Margir hafa haldið því fram í umræðunni að með því að gefa fjórmenningunum stöðu sakborninga í málinu sé gerð aðför að frjálsri fjölmiðlun í landinu.
Á viðburðarsíðu sem hefur verið stofnuð á Facebook fyrir mótmælin segir:
„Að lögreglan á Norðurlandi eystra skuli kalla til yfirheyrslu fjölmiðlafólk fyrir gagnrýna umfjöllun með erindi til almennings er ósásættanleg skerðing á tjáningarfrelsi.
Fjölmiðlafrelsi er grunnstoð hvers lýðræðissamfélags og því mótmælum við þessum aðgerðum lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þær ógna frelsi fjölmiðla hér á landi til að segja frá þeim fréttum sem varða almannahagsmuni og getur verið þess valdandi að fjölmiðlar haldi ekki trausti heimildamanna sinna af ótta við lögsókn.“
Trausti Breiðfjörð Magnússon, sem er í stjórn Ungra Sósíalista, ritar grein hjá Vísi í dag þar sem hann hvetur fólk til að mæta á mótmælin.
„Okkar þjóð stendur á háskalegum tímum. Við erum á hraðri leið í átt að því að verða land þar sem raddir auðmanna stýra öllu á kostnað almennings. Þar sem örfáir aðilar eiga svo til öll fyrirtæki, fjölmiðla og þar að auki heilu stjórnmálaflokkanna. Þessi auðstétt telur sig nú geta pönkast í blaðafólki og sótt það til saka, þaggað niður í því fyrir að skrifa um brot þeirra og valdagræðgi.“
Trausti segir að ef þesi þróun verði ekki stöðvuð strax sé Ísland komið á hættulega braut. Gagnrýnir hann einnig að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi látið til sín taka í málinu með greinaskrifum á Facebook.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins fór mikinn á Facebook í vikunni og talaði um að á Íslandi væri réttarríki. Vildi meina að þess vegna væri mjög rökrétt hjá lögreglustjóranum fyrir norðan að eltast við fjölmiðlafólk. Í hvaða heimi lifir þessi maður? Hér á landi er algjör glundroði í löggæslumálum þegar kemur að efnahags- og samkeppnisbrotum.“
Mótmælin á morgun séu til þess að segja að nú verði ekki lengur við unað.
„Ungliðahreyfingar þvert yfir hið pólitíska litróf ætla að lýsa stuðningi við mótmælin. Þar eru Ungir Píratar, Uppreisn, Ungir VG, Ungir Jafnaðarmenn og Ungir Sósíalistar. Stjórnvöld verða að átta sig á því að þetta er ekki í lagi. Ef þið haldið ofsóknum áfram í garð fjölmiðlafólks eða látið þær afskiptalausar mun landið okkar verða ríki þar sem frelsi og mannréttindi þurrkast út. Ég hvet því alla til þess að láta sjá sig á Austurvelli klukkan 14 á Laugardaginn, og fyrir þá sem búa fyrir norðan að mæta á Ráðhústorgið á Akureyri. Ef þið viljið berjast fyrir því að landið okkar sé lýðveldi, en ekki auðveldi, rísið þá upp og segið með okkur: Hingað og ekki lengra!“