Kennarasamband Íslands greinir frá því á vef sínum að grunnskólakennari hafi haft betur í máli gegn Dalvíkurbyggð vegna ólögmætrar uppsagnar. Voru kennaranum dæmdar 8 milljónir í bætur eftir „fyrirvaralausa uppsögn“.
Forsaga málsins er sú að kennarinn, sem kenndir íþróttir, var með tíma utanhúss þegar nemandi, stúlka, sem ekki átti erindi á svæðið kom þar að.
Kennarinn greindi frá því að stúlkan hafi verið ókurteis og neitað að yfirgefa svæðið þrátt fyrir fyrirmæli frá kennaranum.
„Þá settist kennarinn niður á hækjur sér og tók um úlnlið stúlkunnar, horfði í augu hennar og bað hana að færa sig því hún væri að trufla kennslu,“ segir í tilkynningu Kennarasambandsins.
Stúlkan hafi ekki orðið við þessum fyrirmælum heldur sagt: „Ekki fokking snerta mig“ og í kjölfarið sveiflað hendinni „hraustlega“ og gefið kennaranum „kröftugan löðrung.“
Við þetta hafi kennaranum brugðið og ósjálfrætt gripið til sjálfsvarnar og gefið nemandanum „léttan kinnhest.“ Greindi kennarinn svo frá að hún hafi upplifað ógn af stúlkunni sem hafi verið í ham og gert ráð fyrir fleiri höggum.
Kennarinn hafi í kjölfarið verið kærður til lögreglu og sendur í launalaust leyfi frá starfi. Málið var síðar fellt niður hjá lögreglu. Bæjaryfirvöld tóku málið til skoðunar og ákváðu að víkja kennaranum fyrirvaralaust úr starfi.
20 kennarar og starfsfólk rituðu bréf til bæjaryfirvalda og sögðu erfiðleika í skólastarfinu mikla og að stjórnendur væru ekki bregðast við stöðunni. Mikið agaleysi væri á nemendum og væri brottrekstur umrædds íþróttakennara staðfesting á því að ástandið yrði áfram liðið af skólastjórnendum og muni líklega versna.
Ágreiningur í málinu laut að því hvort að kinnhestur kennarans hafi verið tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar eða áminningar.
Stúlkan sem um ræddi hafði átt við agavandamál að stríða og hafði ítrekað ekki sinnt tilmælum kennarans.
Dómari hafi rekið að nemandinn hafi ekki farið eftir lögum en nemendum beri skylda til að hlýta fyrirmælum kennara, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkini. Ekki væri hægt að líta einangrað á kinnhestinn þar sem nemandinn hafi ráðist á kennarann fyrst.
Ófremdarástand hafi verið í skólanum og hafi kennarar upplifað valda- og öryggisleysi í störfum sínum og hafi verið varnarlausir fyrir hverskyns ofbeldi.
Dómari taldi kinnhestinn ekki vera gróft brot í starfi sem réttlætti fyrirvaralausan brottrekstur. Umræddur kennari hafi verið með flekklausan starfsferil og ekkert benti til að viðvera kennarans í skólanum myndi valda skaða í starfseminni.
Í tilkynningu Kennarasambandsins segir ennfremur:
„Niðurstaða dómsins er afgerandi um að brottreksturinn var ólögmætur og brotalamir hafi verið á ferli málsins af hálfu bæjaryfirvalda. Jafnframt telur dómurinn að miski kennarans sé verulegur.
Í dómsorðinu segir að ekki verði litið fram hjá því að kennarinn var starfsmaður bæjarfélagsins sem hvorki „gætti hagsmuna hennar né sýndi henni stuðning, svo sem stefnda bar að gera sem vinnuveitenda hennar“. Þá hafi kennarinn ekki fengið leiðbeiningar um að taka einhvern með sér á fundi vegna málsins en það er til þess fallið að auka á yfirburðastöðu skólastjóra Dalvíkurskóla.
Kennaranum eru, sem fyrr segir, dæmdar átta milljónir króna, sex vegna fjártjóns og tvær vegna miska. Þá er Dalvíkurbyggð gert að greiða 1,2 milljón í málskostnað.
Karl Óttar Pétursson, lögmaður Félags grunnskólakennara, flutti mál fyrir hönd kennarans.“