Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, hefur birt yfirlýsingu í tilefni af fréttaflutningi og umræðu um málefni sem tengjast honum. Fjórir blaðamenn hafa fengið stöðu sakbornings og verið boðaðir í lögregluyfirheyrslu vegna rannsóknar Lögreglunnar á Norðurlandri eystra á meintum þjófnaði á síma Páls í maí 2021 og afritun á gögnum úr honum. Páll lá lífshættulega veikur á Landspítalanum er sími hans var tekinn og rannsakar lögregla einnig mögulega byrlun gagnvart honum, en samkvæmt heimildum DV eru blaðamenn ekki grunaðir um aðild að henni, heldur að hafa brotið gegn lögum um friðhelgi einkalífs í meðhöndlun sinni á gögnum úr síma Páls. Ekki liggur fyrir í hverju sá meinti saknæmi verknaður er fólginn, í öðru en því að skrifa fréttir upp úr gögnunum.
Páll segir í yfirlýsingu sinni að síðustu dagar hafi verið honum mjög erfiðir en stuðningur eigenda og starfsmanna Samherja hafi reynst honum dýrmætur. Hann hvetur fólk til hófsemi í yfirlýsingum um þá blaðamenn sem hafa stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu og minnir á að engin sök hafi sannast á þá. Yfirlýsingin birtist á Facebook-síðu Páls og veitti hann DV leyfi fyrir birtingu hennar.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Kæru vinir, ættingjar og samstarfsmenn.
Síðustu dagar hafa verið mér og mínum mjög erfiðir enda hátt reitt til höggs og yfirlýsingar ekki sparaðar. Ég bý hins vegar svo vel að eiga góða að og hefur stuðningur eigenda Samherja og starfsmanna fyrirtækisins verið mér ómetanlegur.
Ég er líka djúpt snortinn yfir stuðningi allra vina minna, kunningja og meira að segja ókunnugs fólks sem hefur haft fyrir því að senda mér falleg skilaboð og hringja í mig. Ég skil vel að marga svíði undan óréttlætinu en vil biðja fólk um að gæta hófs í orðum í garð þeirra fjölmiðlamanna sem nú hafa stöðu sakbornings í sakamálarannsókn lögreglunnar. Slík formleg staða er ekki ávísun á sekt heldur veitir sakborningum mikilvæg réttindi til að gæta hagsmuna sinna. Gleymum því ekki heldur að þessir aðilar eiga fjölskyldur, börn, maka, foreldra, systkini og vini sem sárnar umræðan skiljanlega. Orð geta sært.
Ég hef fulla trú á að lögreglan vinna að rannsókn þessa máls af heilindum og að hún muni leiða hið sanna í ljós. Vil ég því biðja ykkur um að sýna lögreglu biðlund en ég er þess fullviss að þið munið skilja þögn mína þegar sá tímapunktur kemur að upplýst verði opinberlega um málið. Þar sannast hið fornkveðna að bylur hæst í tómri tunnu.
Undanfarnir mánuðir hafa tekið mjög á mig og fjölskyldu mína en það hefur veitt mér styrk að finna stuðninginn frá ykkur. Er ég ykkur afar þakklátur og bið ykkur um að hafa orð mín í huga.“