Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, flugmanni og framkvæmdastjóra Niceair, að það sé veruleg þörf á millilandaflugi fyrir Norður- og Austurland.
Hann sagði að rannsóknir sýni að 70% þeirra ferðamanna sem vilja koma aftur hingað til lands vilji hefja ferðalagið úti á landi. Þegar þeir komi aftur vilji þeir fara beint út á land en ekki þurfa að ferðast langar vegalengdir til að komast á áfangastað.
Hvað varðar heimamarkaðinn sagði hann það hafa komið á óvart hversu sterkur hann sé. Með flugi frá Akureyri geti fólk komist samdægurs á áfangastað og þurfi ekki að taka tvo aukafrídaga, eins og nú, til að komast til og frá Keflavík.
Boðið verður upp á fimm til sex flug í viku með Airbus 319 vél sem tekur 150 farþega. Í fyrstu verður flogið til Bretlands, Danmerkur og Spánar.