Þau Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og Helga Vala Helgadóttir þingmaður segja að sáttamiðlun sé raunhæf leið í kynferðisbrotum, einkum varðandi vægari brot sem og varðandi ámælisverða hegðun sem þó sé ekki lögbrot. Helgi og Helga reifa þetta í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Sáttamiðlun er úrræði sem þegar er til í íslenska réttarkerfinu og er þegar beitt í vægari afbrotum, einkum hjá ungum afbrotamönnum. Henni hefur þó ekki verið beitt í kynferðisbrotamálum. Í leiðbeiningum ríkissaksóknara um sáttamiðlun segir:
„Uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice) er heiti hugmyndafræði sem felur í sér að leitast er við að ná sáttum á milli brotamanns og brotaþola í kjölfar afbrots. Sáttamiðlun (e. mediation, d. mægling) er sú aðferð sem oftast er beitt við þetta. Í sáttamiðlun felst að brotamaður og brotaþoli eru leiddir saman í því skyni að koma hinum brotlega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að friðmælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um málalok.“
Sáttamiðlun er því úrræði sem er þegar virkt í kerfinu en hefur ekki komið við sögu í kynferðisbrotamálum. Helgi og Helga segja í grein sinni að sáttamiðlun geti bæði verið innan og utan réttarvörslukerfisins:
„Sáttamiðlun getur verið hluti af réttarvörslukerfinu þar sem lögregla eða saksóknari vísa málum í sáttaferli eða verið alveg utan kerfisins þar sem sérhæfðir aðilar taka málin að sér ef mál hefur ekki ratað inn í réttarvörslukerfið. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara frá því í mars 2021 er lögreglu heimilt að beita sáttamiðlum í ýmsum brotaflokkum almennra hegningarlaga en þó skal ekki beita sáttamiðlun vegna brota er falla undir kynferðisbrotakafla laganna, að undanskildum blygðunarsemisbrotum. Telja höfundar að mögulega þurfi að heimila lögregluembættunum að beita einnig sáttamiðlum vegna umræddra brota.“
Greinarhöfundar segja að sáttamiðlun sé aðeins gerleg ef báðir aðilar eru fúsir til hennar og það þarf að vera á hreinu að gerandi viðurkenni brot sitt og vilji bæta fyrir það. Ennfremur segir:
„Vægari kynferðisbrot geta að mörgu leyti verið heppileg fyrir sáttamiðlun þar sem hefðbundin leið gegnum réttarvörslukerfið er yfirleitt bæði þung og tímafrek en jafnframt verulega íþyngjandi upplifun fyrir þolendur. Kröfur um sönnunarbyrði í sakamálum eru stífar enda eiga þær að vera það. Í þessum málaflokki er oftar en ekki um að ræða orð gegn orði, játningar fátíðar og engin vitni. Meginregla sakamálaréttar er að allur vafi um sekt skuli metinn sakborningi í vil og þess vegna er gerð sú krafa af réttarvörslukerfinu að lögfull sönnun teljist komin fram svo málið komist fyrir dóm og sakfelling náist. Stálin stinn mætast í réttarsalnun og þolandinn situr oft uppi með miskann og skömmina en engan lögformlegan geranda. Þolendur veigra sér því oft við að feta þessa grýttu leið einkum þegar um vægari brot er að ræða en einnig þegar þolandi og gerandi tengjast vina- eða fjölskylduböndum.“
Þá segir að sáttamiðlun geti opnað nýja leið fyrir bæði þolendur og gerendur í kynferðisbrotamálum. Þá segja þau að umfjöllun um kynferðisbrotamál undanfarið ætti að virka hvetjandi fyrir gerendur til að gangast undir þetta úrræði:
„Sá stuðningur sem þolendur kynferðisbrota hafa fengið í kjölfar Me-too-bylgjunnar mun án vafa ýta undir að gerendur vilji fara þessa leið og taka ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem þær eru saknæmar eða ekki. Rannsóknir frá bæði Kanada og Bandaríkjunum sýna að sáttamiðlun getur hjálpað þolendum kynferðisbrota að takast á við lífið að nýju um leið og hún opnar leið fyrir gerendur á farsælli endurkomu í samfélagið.“
Greinarhöfundar segja að tímabært sé að leggja til þær breytingar að kynferðisbrotamál verði tekin inn í ferli sáttamiðlunar þegar við á:
„Sáttamiðlun er heimil á Íslandi en lítið notuð nema einna helst í málefnum ungra brotamanna og ekki í kynferðisbrotum eins og áður sagði. Árangurinn hefur verið góður og aðilar mála lýst sig ánægða með lyktir mála. Sérfræðihópar sem metið hafa úrræðið og aðilar ákæruvalds á Íslandi hafa allir mælt með aukinni notkun sáttamiðlunar í sakamálum. Þolendur kalla á breytt vinnubrögð – er ekki tímabært að leggja til þessar breytingar?“