Síðastliðinn desember opnaði fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson fata- og lífstílsverslunina Nebraska á Barónsstíg í miðbæ Reykjavíkur ásamt félögum sínum, þeim Benedikti Andrasyni og Kjartani Óla Guðmundssyni.
Nebraska hefur gengið afar vel síðan það opnaði en nýlega lentu eigendur staðarins í veseni. Vesenið varðar Facebook-síðu Nebraska en henni var nýlega lokað af Facebook. Ástæðan fyrir lokuninni var „dreifing á nekt“ en enga nekt var þó að finna á Facebook-síðunni. Hins vegar mátti sjá þar konu klædda í sandlitaða kápu, svo virðist vera sem vélmenni samfélagsmiðilsins hafi talið að um nakta konu væri að ræða.
„Þetta er algjört vesen,“ segir Guðmundur um málið í samtali við DV. „Við fengum bara meldingu um að við værum að brjóta staðla vegna nektar og ósæmilegra pósta. Svo kom aðvörun og við bara áfrýjuðum því strax. Innan svona tveggja klukkutíma var þá bara búið „suspenda“ okkur, það var enginn aðdragandi að þessu. Þetta eru náttúrulega allt einhverjir bottar sem maður er að tala við.“
Það var ekki bara fyrirtækjasíðan sem fékk refsingu fyrir sandlituðu kápuna, Facebook-síðum Guðmundar og Benedikts var einnig lokað vegna kápunnar. Þær voru þó opnaðar fljótlega aftur.
„Svo reyndum við að opna aðra síðu, henni var lokað líka, svo opnuðum við þriðju og svo loksins fengum við þá samband við einhverja sérfræðinga og náðum þá að tala við einhverjar raunverulegar manneskjur hjá Facebook, þá héldum við að við værum hólpnir og að þær myndu gera allt fyrir okkur. Svo kom úrskurður bara án röksemda að það væri búið að loka síðunni til frambúðar.“
Næsta skref hjá Guðmundi og félögum er einfalt, það er að reyna enn og aftur að stofna Facebook-síðu fyrir verslunina. „Sem er náttúrulega smá ærandi, maður var kominn með helling af fylgjendum á þessa síðu og búinn að byggja hana upp.“
Guðmundur vakti athygli á málinu á Twitter-síðu sinni í dag en hann er nokkuð vinsæll á þeim miðli. Færslan vakti töluverða athygli og ljóst er að fleiri hafa lent í veseni með Facebook vegna ekki-nektar.
Fyrir mánuði síðan var facebook síðu Nebraska lokað vegna dreifingar okkar á nekt. Næst tóku við bönn á okkar persónulegu síðum & eftir vikur af áfrýjunum barst okkur í gær loks niðurstaða í málinu.
Síðunni hefur verið lokað fyrir fullt og allt v. konu í sandlitaðri kápu = nekt pic.twitter.com/mRg3Iq6oS6
— Guðmundur Jörundsson (@gudmundur_jor) February 16, 2022
Fjölmiðlakonan Margrét Erla Maack segir til dæmis frá því að hennar síðu hafi verið lokað í þrjá mánuði vegna myndar sem hún birti þar. Á þeirri mynd virðist í fyrstu sem það sjáist í kynfæri en þegar nánar er að gáð má sjá að ekki er um raunveruleg kynfæri að ræða.
Ég var sett í þriggja mánaða facebookbann vegna nektar, á þessari mynd: pic.twitter.com/0uMXc6E2RU
— Margrét Erla Maack (@mokkilitli) February 17, 2022
Kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafn Jónsson segir svo frá því að Instagram-aðgangi sínum hafi verið lokað, hann fékk þó engar ástæður fyrir því.
Besta fyrirtækið. Mér var einmitt sparkað af instagram um daginn. Engin ástæða gefin. Pósta engu nema fjölskyldumyndum. Bara algjört computer says no að fá svör.
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) February 17, 2022